Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist.

442. mál
[15:32]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Hildi Sverrisdóttur fyrir sitt góða innlegg hér. Mér finnst viðeigandi að geta þess sem vel er gert, ekki bara í dag heldur í aðdraganda þessa alls. Um leið og ég er búinn að ljúka lofsorði á hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra fyrir það sem hér hefur verið gert núna bara á síðustu mánuðum og misserum, sem er allt til mikillar fyrirmyndar, þá vil ég líka nota þetta tækifæri til að þakka þeim sem á undan fóru. Ég man að það var rétt á síðustu vikum eða mánuðum Ragnheiðar Elínar Árnadóttur í starfi sem þessi hugmynd kviknaði með endurgreiðslurnar. Hún tók þennan bolta og með atfylgi Illuga Gunnarssonar, þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, og síðan Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra var þetta keyrt í gegn á mjög skömmum tíma, með stuttum fyrirvara, og virkilega klappað upp af greininni á þeim tíma. Það sem hér hefur verið við bætt er auðvitað stórglæsilegt og til mikilla bóta. Við eigum að vera þakklát fyrir að eiga stjórnvöld sem eru svo samstiga í þessari vegferð sem við erum stödd í. Við erum að feta ljóssins stigu í einu og öllu, leyfi ég mér að segja. Það sem hér fer á eftir eru aðallega bara fínstillingar á því sem er mjög gott kerfi.

Ég ætla rétt í lokin líka að lýsa mikilli ánægju með þróun í tónlistarkennslu sem ég hef upplifað bara persónulega á síðustu vikum og mánuðum, sem er Tónlistarskólinn í Grafarvogi, sem miðar að því að kenna fólki tónlist, kenna fólki að hljóðrita tónlist, kenna fólki að skapa tónlistina, gefa hana út og fylgja því eftir með tónleikahaldi. Svona á tónlistarmenntun að eiga sér stað í nútímanum.