153. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2022.

sala Íslandsbanka og fjármögnun heilbrigðiskerfisins.

[15:50]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Forseti. Það má flækja umræðuna um Íslandsbankasölu en í grunninn snýst það mál um ábyrgð og traust. Ríkisstjórnin ætlar ekki að bera ábyrgð og almenningur ber ekki traust til þess að áframhaldandi sala fari fram á ábyrgð Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra. Þyngsti dómurinn um frammistöðu fjármálaráðherra í síðustu bankasölu er sá að fjárlög næsta árs eru í uppnámi. Fjárlagafrumvarpið gerir nefnilega ráð fyrir 76 milljarða kr. sölu á hlut í bankanum en nú segir hæstv. forsætisráðherra að hún ætli ekki að selja meira fyrr en nýtt sölufyrirkomulag er orðið að lögum. Um þetta var send út sérstök fréttatilkynning. Ekkert slíkt frumvarp liggur fyrir. Engin slík lagasetning er til og staðan er kannski einfaldlega sú að það er búið að reka fasteignasalann, það er búið að loka fasteignasölunni en það á samt að selja húsið. Er þetta sannfærandi söluferli? Eftir stendur sú alvarlega afleiðing að almenningur á Íslandi situr mögulega uppi með það hvernig eigi að brúa þetta 76 milljarða gat, sem reyndar fer ofan á þá stöðu að fjárlögin gera ráð fyrir 90 milljarða kr. halla. Tafir á sölunni munu hafa áhrif á skuldastöðu, á niðurgreiðslu skulda, á vaxtagjöld ríkissjóðs og þar með á getu ríkisstjórnarinnar til að fjármagna mikilvæga innviði eins og heilbrigðiskerfið, langstærsta rekstrarlið ríkisins. Þegar allt kemur til alls þá held ég að þetta sé skýrasta svarið um árangur hæstv. fjármálaráðherra í þessari sölu. En ég vil spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra, sem jafnframt er fyrrverandi formaður fjárlaganefndar og hefur reynslu af fjárlagagerð, hvort það sé ekki fyrirséð að það muni hafa áhrif, skerða þjónustu, t.d. á Landspítalanum, lengja biðlista o.s.frv. verði ekki af fyrirhugaðri sölu.