153. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2022.

mótun stefnu í fiskeldismálum.

[15:58]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hæstv. matvælaráðherra lagði fram í febrúar drög að áherslum og verklagi við gerð matvælastefnu í samráðsgátt stjórnvalda. Þar er fjallað um matvæli, sjávarútveg, landbúnað og fiskeldi. Það er mikilvægt fyrir okkur öll að taka þessa stefnu. En svo var líka lögð áhersla á hvernig skyldi unnið að stefnumótun til næstu ára. Mig langar hér að beina kastljósinu að fiskeldisstefnunni þar sem til stendur að móta heildstæða stefnu um uppbyggingu, umgjörð og gjaldtöku fiskeldisins. Fiskeldi er stór og öflug atvinnugrein sem er að fóta sig í íslenskri lögsögu og því eðlilegt að mótuð verði skýr stefna til að sátt ríki um greinina, bæði frá umhverfislegum sjónarmiðum og ekki síst til að mynda samfélagslega sátt. Ákall hefur verið frá sveitarfélögum þar sem sjókvíaeldi er stundað um að hraða vinnu við að auka hlutdeild sveitarfélaganna sem næst standa að eldinu af þeim auðlindagjöldum sem koma inn af greininni til að standa straum af þeirri innviðauppbyggingu sem greinin kallar á. Á vef Stjórnarráðsins segir um hugmyndir um mótun fiskeldisstefnunnar, með leyfi forseta: „Mótuð verður heildstæð stefna um uppbyggingu, umgjörð og gjaldtöku fiskeldis. Við þá vinnu verður lögð áhersla á tækifæri til atvinnusköpunar og mikilvægi þess að greinin byggist upp á grundvelli sjálfbærni, vísindalegrar þekkingar og verndar villtra laxastofna.“ Þá er tekið fram að gert sé ráð fyrir að niðurstöður vinnunnar verði kynntar á matvælaþingi sem haldið verður á vegum ráðuneytisins sem vinnur að útfærslu stefnunnar, þ.e. á matvælaþinginu sem er á morgun.

En maður hefur lítið frétt af þessari stefnu og ég vil spyrja hæstv. matvælaráðherra hvernig vinnan við matvælastefnuna gangi og þá sérstaklega við fiskeldisstefnuna. Í öðru lagi: Ef gert er ráð fyrir því að vinnan við fiskeldisstefnuna dragist á langinn, telur þá hæstv. ráðherra ekki að hraða þurfi sérstaklega vinnu við að yfirfara laga- og reglugerðaumhverfi sjókvíaeldis með hliðsjón af gjaldtöku af fiskeldi, með hliðsjón af því að tryggja sveitarfélögum, þar sem sjókvíaeldi stundað, skýrar heimildir til töku gjalda af sjókvíaeldi og eins til að tryggja tekjur af greininni til að standa undir þeirri innviðauppbyggingu sem þarf við greinina?