153. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2022.

mörkun stefnu í fiskeldismálum.

[16:00]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Svo ég byrji á að gera grein fyrir því hvernig þetta spilar saman, annars vegar matvælastefna og hins vegar stefna sem lýtur sérstaklega að fiskeldismálum, þá er matvælastefna kynnt á morgun í drögum, af því að matvælaþinginu er ætlað að fara yfir þau drög og síðan kæmu þau til þingsins í þingsályktunartillögu. Matvælastefnan er hugsuð þannig að hún sé í raun og veru grundvöllur stefnumótunar Íslands í framleiðslu matvæla. Þá erum við að tala um það sem lýtur að loftslagsmarkmiðum, fæðuöryggissjónarmiðum, matvælaöryggi, hringrásarhagkerfi, menntun og rannsóknum o.s.frv. Almennt. Síðan erum við að vinna að, eins og hv. þingmaður nefndi hér, stefnumótun sérstaklega fyrir fiskeldið, vegna þess að þar höfum við búið við þá stöðu að fiskeldið hefur í raun og veru byggt á lagaumhverfinu en ekki stefnumótun stjórnvalda. Ég held að við séum öll sammála um að það sé löngu tímabært að stjórnvöld taki sér tak og fari yfir þetta svið. Þá erum við að tala um tvennt: Annars vegar það að við förum ofan í saumana á því hvernig regluumhverfið er í dag og að hve miklu leyti það kemur til móts við mjög ört vaxandi atvinnugrein. Og svo hins vegar: Hvert viljum við fara í framtíðinni? Ríkisendurskoðun er að fara yfir stöðuna. Við eigum von á því að fá stöðumat frá þeim á næstu vikum, er mér sagt, en Ríkisendurskoðun hefur verið upptekin undanfarnar vikur eins og þingheimur veit. Þetta er allt saman á tíma, þ.e. þetta er allt í samræmi við þær áætlanir sem við höfum verið með. Ég hef lagt mjög mikla áherslu á opið ferli í þessu öllu saman þannig að ég fullvissa hv. þingmann um að þegar gögn liggja fyrir munu þau verða lögð fram til samráðs við almenning og auðvitað ekki síður þingmenn.