Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2022.

kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla.

27. mál
[16:37]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. flutningsmanni fyrir flutninginn á þessu frumvarpi sem ég er meðflutningsmaður að. Ég er sammála upplegginu í frumvarpinu en að sama skapi hef ég miklar skoðanir á því hvernig unnið verður úr því. Þetta er sannarlega bara úrgangur og við erum alltaf að tala um að við þurfum að stýra betur úrgangsmálum þjóðarinnar og heimsins. Að sama skapi viljum við auka frelsi einstaklingsins frá getnaði til grafar.

Eins og kemur fram í frumvarpinu og í máli flutningsmanns óska alltaf fleiri og fleiri eftir því að fá að vera brenndir og við þurfum að horfa á þetta í því ljósi; ég er alveg sammála því og það er mjög mikilvægt. Mér finnst alveg eðlilegt að óskir hins látna séu virtar, um það hvar ösku hans sé dreift, en við þurfum líka að horfa til þess að þetta getur valdið vandræðum. Segjum að hinn látni hafi verið alinn upp á Skúlagötu 14, ég nefni bara eitthvert heimilisfang af handahófi, og verið þar til fullorðinsára, átt þar yndislega æsku. Í því húsi býr nú önnur fjölskylda og hinn látni vill láta dreifa öskunni í garðinum þar. Ég held að fjölskyldan sem býr þar núna sé kannski ekki endilega hrifin af því.

Eins og kom fram í máli hv. þm. Orra Páls Jóhannssonar eru vatnsverndarmálin mikilvæg. Við getum líka sett spurningamerki við fleiri staði, t.d. almenningsgarða í bæjum og fleiri staði. Þá þarf líka að virða skoðanir landeigenda eða gera þetta í einhverju samráði við þá. Við erum með ríka kirkjugarðshefð hér á Íslandi og heimsækjum, eins og kom fram í máli flutningsmanns, grafir ættingja okkar og finnst mikilvægt að geta vitjað þeirra, hvort sem er á stórafmælum eða um jólin til dæmis. Það er nú svolítið sérstakt hér á Íslandi að kirkjugarðarnir eru lýstir upp eins og spilavíti, ég segi það bara hreint út, yfir hátíðarnar. Ég vil ekki endilega leggja mikið upp úr því. Þetta er ný hefð hér á landi og við getum alveg rætt það opinskátt hvað okkur finnst um það. Í Danmörku er t.d. ekki leyfilegt að lýsa upp leiði ættingja í kirkjugörðum og mér finnst stundum að við séum að ganga svolítið langt í því efni. Að sama skapi er ég mikill áhugamaður, hvar sem ég kem, um að stoppa við kirkjur og rölta um. Maður les svo mikla sögu á legsteinunum og mér finnst t.d. mjög skemmtilegt að leita að leiðum ættingja o.fl.

Þá komum við að auðkenningu slíkra dreifingarstaða, þar sem ösku er dreift. Ég sé það ekki alveg fyrir mér. Ef við viljum fara um víðan völl með öskuna, viljum við þá sjá minningarskildi hér og þar? Ég vil t.d. nefna Hornstrandir, þetta eru svona vinsælir staðir, eða Gullfoss. Viljum við, ef við erum að ganga upp Esjuna, koma að skildi sem á stendur: Hér er ösku Jóns Jónssonar dreift? Og svo eru kannski blóm við minningarskjöldinn. Við þurfum að ræða þetta fram og til baka. Mér finnst mjög nauðsynlegt að opna þessa umræðu.

Skráning á legstöðum, eins og t.d. á garður.is — ég fer mjög oft þar inn af því að ég hef gaman af sögu ættingja minna og annarra. Ég fer stundum inn í minningargreinarnar, bara til að lesa sögu fólks, sem getur verið mjög merkileg þó að fólk sé ekki endilega þekkt. Þá byrjar maður á upphafinu og endar á því hvernig þeirri sögu hefur lokið og hvar fólk hvíli. Og svo er það spurning um persónuvernd í þessu máli, þurfum við að virða hana? En ég myndi ekki vilja sjá einhverja slíka skildi á göngu minni upp Esjuna, minningarskildi um að þarna sé ösku fólks dreift.

Við verðum að taka þessa umræðu. Nú er bara heimilt að dreifa ösku yfir sjó og öræfi. Það eru margir staðir á landi sem fólk myndi vilja sjá ösku sinni dreift á. Ég held að akkúrat það fólk sem er að óska eftir því að fá ösku sinni dreift sé ekkert endilega á því að vera að merkja staðinn. Fólk vill fara út úr kirkjugarðinum, ekki vera með neitt legstæði, heldur að öskunni sé bara dreift á opnum stað eða á einhverjum ákveðnum stað; vill ekki endilega að þar sé komið fyrir styttu eða einhverjum minnisvarða. Við þurfum líka að setja reglur um það hvernig við viljum þá merkja slíkt ef við ætlum að merkja það.

Mig langaði bara til að koma upp og leggja þetta inn í umræðuna. Ég er sannarlega sammála því að þetta mál verði tekið upp og samþykkt. En þetta er innlegg mitt í þá umræðu sem á eftir að fara fram í nefndinni. Mér finnst nauðsynlegt að við séum að opna á þessa umræðu þegar staðreyndin er sú, eins og kemur hér fram, að 35% fólks óska eftir því að fá að vera brennd. Þá skiptir máli hvernig það er gert og að við getum helst uppfyllt þær óskir sem hinn látni ber fram. En við verðum líka að viðurkenna að þetta er bara úrgangur og við verðum að horfast í augu við það að ekki er hægt að dreifa ösku fólks alls staðar.