Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2022.

millilandaflug um Hornafjarðarflugvöll.

36. mál
[17:28]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir viðbrögðin. Ég er líka á því að það megi halda opnum möguleika á því að alþjóðlegur flugvöllur við Hornafjörð kynni mögulega að vera betur staðsettur en hann er í dag. Það hefur verið nefnt að lendi Flateyjar og nágrennis kynni að vera heppilegri staðsetning. En í þessu samhengi þarf auðvitað að gera kannanir, jarðvegskannanir, kanna möguleika á því sem lýtur að umhverfinu og mögulegum ógnunum sem kunna að stafa af nærliggjandi jöklasvæði og öðru. En í heildina held ég að við séum að tala um eitthvað sem nær vonandi fram að ganga núna og hlýtur framgang í nefndum og þinginu í þágu þess að styrkja innviði. Gleymum því ekki að okkar ágæti hæstv. forsætisráðherra var að fljúga fyrsta rafmagnsflugið sitt. Það styttist því í að flugvélar, rétt eins og bílar, verði knúnar grænni íslenskri orku. Þá erum við í rauninni bara að hlýða kalli tímans og gera möguleika til ferðaþjónustu á Íslandi og samgangna alla betri og millilandaflugið hagfelldara og öruggara en það hefur verið til þessa.