Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2022.

Menntasjóður námsmanna.

48. mál
[18:11]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Forseti. Mig langar að fjalla sérstaklega um 2. gr. frumvarpsins sem hér um ræðir. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. laga um Menntasjóð námsmanna, nr. 60/2020, eru kröfur vegna námslána undanþegnar ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti, um lengd fyrningarfrests og sérreglum þeirra um fyrningarslit. Frumvarpið leggur til að þessi undanþága falli brott, því af hverju eiga aðrar reglur að gilda um námslán við gjaldþrot en gilda um önnur lán? Þetta ákvæði brýtur í bága við meginreglur skuldaskilaréttar um jafnræði kröfuhafa, auk þess að fela í sér mismunun milli skuldara eftir tegund skulda, svo sem vegna námslána eða húsnæðisskulda. Það er því vandséð að umrætt ákvæði laganna samræmist jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar.

Tveggja ára fyrningarreglan 165. gr. laga um gjaldþrotaskipti var sett árið 2010 í kjölfar bankahrunsins og hefur reynst mikilvæg réttarbót en gjaldþrot er stundum eina leiðin sem einstaklingar hafa út úr óviðráðanlegum skuldavanda.

Með umræddri 26. gr. laga, nr. 60/2020, var vegið að því úrræði og það hefur grafið verulega undan réttarstöðu skuldara. Áður en þau lög voru sett var Lánasjóðurinn eini kröfuhafinn sem ekki vildi una slíkri fyrningu og höfðaði fjölda dómsmála til að slíta henni en tapaði þeim öllum. Í öllum dómum Hæstaréttar í þeim málum var því hafnað að sjóðurinn hefði sérstaka hagsmuni umfram aðra kröfuhafa af því að kröfur hans fyrndust ekki samkvæmt ákvæðinu. Ákvæði 26. gr. laga nr. 60/2020 fer því þvert gegn þessum afgerandi niðurstöðum Hæstaréttar. Það eitt og sér hlýtur að leiða til þess að frumvarpið verði samþykkt.