Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2022.

Menntasjóður námsmanna.

48. mál
[18:14]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegur forseti. Ég ætlaði rétt að hnykkja á þessu sem hv. þm. Tómas Andrés Tómasson talaði um. Það er einhver gamall misskilningur að námsmenn sem hafa í sér vilja til að lifa örlítið skárra lífi en við þau hefðbundnu fátæktarmörk sem námsmenn fyrr á árum þurftu að lifa við, námsmenn sem vilja vinna meðfram námi á helgum eða kvöldum eða eitthvað slíkt — að það þurfi að refsa þeim eitthvað sérstaklega fyrir og skerða námslán sem er hvort eð er tryggt og endurgreitt að fullu. Það er ekki eins og einhver sé að tapa á því að námsmenn sýni dugnað og vilja til að bjarga sér og geti jafnvel framfleytt maka, barni eða börnum.

Ég held að þetta frumvarp hv. þm. Tómas Andrésar Tómassonar hljóti að fara í gegn. Það er eiginlega ekki hægt að finna neina ástæðu til þess að það fari ekki í gegn. Þetta er einhver gömul vitleysa, gamall misskilningur, sem þarf bara að stroka út í þeirri fínstillingarvegferð sem við erum með í gangi á samfélaginu okkar, á öllum innviðum og kerfum.