Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2022.

landamæri.

212. mál
[16:30]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Það er á tímum sem þessum sem ég sé hvað mest eftir sætinu í allsherjar- og menntamálanefnd vegna þess að ég er með svo margar spurningar að tvær mínútur duga ekki til. Mig langar að spyrja hv. þingmann varðandi 8. gr. frumvarpsins sem snýst um það að hægt sé að vísa einstaklingum án vegabréfa frá á landamærastöð, það er verið að færa þá framkvæmd úr höndum Útlendingastofnunar eins og er í dag í hendur lögreglunnar. Það er tvennt sem mig langar sérstaklega að spyrja út í varðandi þetta. Það er annars vegar hvort að með þessu sé verið að færa þessa ákvörðun á annan stað í tímalínunni þannig að það geti mögulega komið niður á t.d. umsækjendum um alþjóðlega vernd, eins og fram kom í umsögn Rauða krossins. Meiri hlutinn telur það ekki vera vanda, en þyrfti ekki að taka það skýrar fram í ákvæðinu að við tryggjum t.d. að staðinn sé vörður um refsileysi þess að vera án gildra ferðaskilríkja ef þú ert á flótta, sem er einn af hornsteinum flóttamannasamningsins? Nær það, að tala um einhverjar matskenndar reglur og sérstakrar aðstæður í þessari 8. gr., nægilega utan um þessa grundvallarreglu? Hins vegar vil ég spyrja, vegna þess að ákvörðun um brottvísun getur verið ansi afdrifarík fyrir einstaklinginn sem fyrir henni verður, hvort það hafi eitthvað verið hugsað út í aðkomu lögmanna að þessu, hvort fólk eigi einhvern rétt á slíkri þjónustu, hvort það sé séð til þess að fólk fái þjónustu lögmanna til að geta andmælt þeirri ákvörðun að vera brottvísað á landamærastöð.