Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2022.

landamæri.

212. mál
[16:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Birgir Þórarinsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ef við víkjum að 8. gr. frumvarpsins þá kom ábending frá Rauða krossi Íslands um 8. gr., sem felur í sér að lögreglan geti undanþegið útlending þeirri skyldu að hafa vegabréf eða önnur viðurkennd ferðaskilríki við komuna til landsins og jafnframt tekið ákvörðun um frávísun á landamærunum ef skilyrði fyrir komu eru ekki uppfyllt. Eins og hv. þingmaður nefndi réttilega þá hefur Útlendingastofnun farið með þessa heimild samkvæmt gildandi lögum og komu þau sjónarmið fram að þessi breyting gæti haft áhrif á möguleika til að sækja um alþjóðlega vernd hér á landi eins og hv. þingmaður var hér að fjalla um, t.d. ef einstaklingar eru án skilríkja. Meiri hluti nefndarinnar undirstrikar það, og það kemur fram í nefndarálitinu, að þessi breyting er gerð með hliðsjón af hlutverki lögreglu við landamæraeftirlit samkvæmt frumvarpinu og telur að hún muni ekki hafa áhrif á möguleika einstaklinga til að óska eftir alþjóðlegri vernd hér á landi. Ég held að það sé kannski kjarni málsins í þessu og ég tel að meiri hluti nefndarinnar hafi rætt það ágætlega í nefndarálitinu.