Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2022.

landamæri.

212. mál
[17:14]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég get ekki séð annað, sagði hv. þingmaður og sá eitthvað annað en ég út úr þessu máli. Þetta er einmitt vandinn við að nefndin hafi ekki ráðist í þær greiningar sem nauðsynlegar eru, til þess að við séum ekki að taka grundvallarákvörðun um hvernig við tökum á fólki á landamærunum byggða einungis á því hvað okkur finnst eða hvað ráðuneytið segir að okkur eigi að finnast. Fáum því aðeins dýpri greiningar og köfum kannski sérstaklega ofan í það sem kemur fram í skýrum og afdráttarlausum umsögnum frá sérfræðingum á sviðinu, eins og Rauða krossinum.

Þegar einstaklingur kemur að landamærum og sækir um alþjóðlega vernd þá fær hann málsmeðferð samkvæmt þeim reglum sem þar um gilda. Lítum á 36. gr. laga um útlendinga þar sem stendur í 1. mgr. að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema umsækjandi hafi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd í öðru ríki. Hvað þýðir þetta fyrir fólkið sem flýr Grikkland? Hvað sýnist hv. þingmanni þetta þýða fyrir fólkið sem er að flýja Grikkland eftir að hafa fengið vernd þar og kemur til Íslands? Þýðir það að lögregla á landamærum á Íslandi geti vísað viðkomandi strax úr landi, án lögfræðiaðstoðar, vegna þess að málsmeðferðin er svona í lögum um útlendinga? Það hefði kannski komið fram í greiningu ef hún lægi fyrir.