153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Herra forseti. Ég ætla að gera hér að umtalsefni starfsreglur fastanefnda og meðferð trúnaðarupplýsinga í þeim. Í Morgunblaðinu í dag er haft beint eftir hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni, spurður hvort hann hafi séð skýrslu ríkisendurskoðanda áður en hún var birt opinberlega daginn eftir svarar hann, með leyfi forseta:

„Já, á fullkomlega löglegan hátt sem við erum með kvittað upp á frá nefndasviði Alþingis. Það kallast að trúnaður yfirfærist vegna svona gagna. Nefndarmenn sem fá trúnaðargögn önnur en þau sem eru birt í lokuðu herbergi geta deilt trúnaði með öðrum þingmönnum.“

Herra forseti. Þetta fær ekki staðist. Trúnaður er ekki framseljanlegur með þessum hætti. Í 3. mgr. 40. gr. starfsreglna fastanefnda þingsins stendur, með leyfi forseta: „Aðrir þingmenn hafa ekki aðgang að trúnaðarupplýsingum nefndar.“ Það þarf að leita sérstaks leyfis forseta ef gera á undantekningu á þessari reglu.

Þessu til viðbótar, herra forseti, þá hefur hv. þingmaður frjálslega brigslað tilteknum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins um að brjóta trúnað, að því er virðist eingöngu vegna þess að hann sjálfur hafði aðgang að skýrslunni.

Herra forseti. Þetta er alvarlegt mál sem þarfnast skýringar. Hvernig kvittaði nefndasvið Alþingis upp á þessa meðferð trúnaðarupplýsinga úr stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, eða veitti forseti sjálfur leyfi fyrir meðferð þessara upplýsinga eins og áskilið er í starfsreglunum? Það þarf að fá botn í þetta, herra forseti. (Forseti hringir.) Það er vandséð hvernig aðrar nefndir sem fara með viðkvæm málefni, eins og utanríkismálanefnd, eiga að geta fjallað um trúnaðarupplýsingar og viðkvæm mál ef þetta er staðan.