153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. 1.500 nýir hjólastólarampar til að auðvelda fötluðum aðgang að verslunum og annarri þjónustu. Hvers vegna ekki 15.000 rampar eða 150.000 rampar? Því að það er eitt að rampa aðgang að húsnæði og annað að rampa út aðrar hindranir sem taka við. Að komast inn til sjúkraþjálfara eftir rampi er flott, en til hvers er það ef viðkomandi á ekki auka 2.000 kr. til að borga fyrir sjúkraþjálfunina einu sinni í viku eða tvisvar? Kostnaður sem getur verið frá 8.000 kr. upp í 16.000 kr. á mánuði eða hærri fyrir viðkomandi öryrkja. Og þá dugar skammt 6% hækkun sem á að koma um áramót og viðkomandi verður að hætta í sjúkraþjálfun. Hvert á hann þá að fara til að spara ríkissjóði kostnaðinn? Er það lausn að innrita viðkomandi á sjúkrahús og þá með 100 sinnum dýrari lausn? En sextug kona með MS-sjúkdóm sem verður húsnæðis- og aðhlynningarlaus núna á fimmtudaginn? Ekki dugar rampur handa henni inn, heldur bara út í óvissuna. Hjúkrunarpláss stendur henni ekki lengur til boða og það bíður hennar ekki neitt annað en gatan. Ekki benda á mig, segir sveitarfélagið, því að þetta er ríkisstjórninni að kenna. Ekki benda okkur, segir ríkisstjórnin, því að þegar við fluttum málefni fatlaðs fólks til sveitarfélaganna var vitlaust reiknað hjá okkur og það er ekki okkur að kenna heldur sveitarfélögunum og fötluðu og veiku fólki. Það kostar allt of mikið að hjálpa því. Hvers vegna mega fatlaðir ekki leggja bifreið inn í bílastæðahúsi borgarinnar án þess að borga fyrir? Þetta eru brot á lögum og reglum og ekkert annað en gróft fjárhagslegt ofbeldi. Alþjóðadagur fatlaðra um heim allan er 3. desember næstkomandi og var fyrst haldinn af Sameinuðu þjóðunum árið 1992. Lögfestum núna strax samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks. Með því römpum við út mannlegar hindranir gagnvart fötluðu og veiku fólki. Stjórnarskráin, lög og reglur eru brotnar kerfisbundið á fötluðu og veiku fólki. Er ekki kominn tími til að hætta því?