153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[15:09]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég mæli, fyrir hönd meiri hluta atvinnuveganefndar, fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðigjald, nr. 145/2018, um framkvæmd fyrninga. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um veiðigjald. Með þeim er leitast við að draga úr sveiflum á upphæð veiðigjalds, einkum víxlverkun sem er milli ákvæðis 5. gr. laga nr. 145/2018, um veiðigjald, og ákvæðis til bráðabirgða LXX í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Nefndin fjallaði um málið og fékk gesti á sinn fund og bárust umsagnir um málið sem ítarlega er fjallað um í nefndaráliti. Í kjölfar umfjöllunar nefndarinnar um málið óskaði hún eftir sérfræðiáliti tveggja óháðra sérfræðinga á sviði skattaréttar um þetta afmarkaða efni frumvarpsins. Sérfræðiálitin eru birt á vef Alþingis sem umsagnir við frumvarpið. Þau eru að meginstefnu samhljóða, þ.e. að reiknistofn veiðigjalds, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga um veiðigjald, sé samsettur af ýmsum tekjum og gjöldum, þar með talið skattalegum fyrningum skipa og skipsbúnaðar líkt og þær eru ákveðnar með lögum. Af því leiðir að sú tímabundna hækkun á fyrningum sem heimiluð er í ákvæði til bráðabirgða LXX í lögum um tekjuskatt árin 2021–2025 hefur bein áhrif á ákvörðun reiknistofns veiðigjalds.

Það kemur fram í nefndarálitinu og í umfjöllun okkar í nefndinni að gert er ráð fyrir því að áhrif þessara breytinga séu áætluð um 2,5 milljarðar til hækkunar á greiðslum á veiðigjaldinu á næsta ári. Þar er fyrst og fremst um að ræða uppsjávartegundirnar, þ.e. loðnu, síld, makríl og kolmunna. Gert er ráð fyrir því að með þessari aðgerð verði veiðigjaldið hærra sem því nemur. En það er mikilvægt að hafa í huga að skattlagningin verður hvorki aflögð né gefin eftir heldur er í raun verið að fletja út mikilvæga toppa. Það er áréttað hér að ekki er um auknar tekjur að ræða heldur einungis tilfærslu tekna.

Það er alveg rétt, sem hefur komið fram, að þetta ber brátt að. Það kemur fram í frumvarpi ráðherra og er áréttað að fólki hafi ekki orðið þetta ljóst fyrr en nú í haust þegar fyrir lágu ítarleg gögn frá skattyfirvöldum og útgerðarfyrirtækjunum sem þetta hefur mest áhrif á. Þarna er fyrst og fremst um að ræða örfá fyrirtæki sem hreyfa þennan stofn með þessum hætti og hafa þessi áhrif sem við erum, held ég, sammála um að hafi ekki átt að vera tilgangur þess sem hér er undir. Þá má alveg gagnrýna það að þetta hafi ekki verið nógu vel unnið eins og ég sé að minni hlutinn gerir. Það kemur fram í áliti frá þeim að fólk er að velta því upp, eðli máls samkvæmt, hvernig þetta ber að, að ekki hafi mátt sjá þessa víxlverkun fyrir. En það kemur líka fram að þegar fjallað var um tekjuskattshliðina á þessu máli hafi fólk ekki heldur áttað sig á því að þetta gæti haft þessi áhrif.

Það liggur fyrir að þetta mál þarf að afgreiða núna. Það er aldrei gott að við séum að afgreiða mál með hraði en þetta þarf að afgreiðast í dag til þess að við getum fengið tillögu að veiðigjöldum frá Skattinum fyrir 1. desember, en það er gert árlega. Það kom líka fram á fundum nefndarinnar að það sem væri að gerast núna væri í andstöðu við markmið veiðigjaldslaganna, þ.e. að þau endurspegluðu ekki afkomu í stofninum á þessum tíma. Það er líka óeðlilegt að örfá skip hafi áhrif á alla. Það er kannski það sem fyrst og fremst er verið að reyna að koma í veg fyrir hér, að þetta hafi ekki óæskileg áhrif.

Ég sé að það er verið að leggja hér fram breytingartillögur og því vil ég geta þess að það er stórsamráð í gangi. Veiðigjaldslögin eru þar undir, og önnur, til endurskoðunar eins og við vitum. Þessi breyting núna snýr fyrst og fremst að þessari sveiflujöfnun, að við séum að ná þessu inn á fimm árum í staðinn fyrir að taka lítið inn á næsta ári og eitthvað meira inn á þarnæsta ári; það er fyrst og fremst verið að jafna þetta út. Ég vil bara halda því til haga að þetta snýr í rauninni að þessum afmarkaða þætti. Ég tel að við séum fyrst og fremst með það undir að laga þennan lapsus en kannski ekki að fjalla um það sem stóra nefndin er að gera og fleiri nefndir þar undir.

Ég vil líka árétta það, af því að við fengum þessi tvö sérfræðiálit frá lögmönnum, að fólk var líka með áhyggjur af mögulegri málsókn. Við getum auðvitað aldrei útilokað neitt slíkt en það er nú samt niðurstaða þessara aðila að það sé afar hæpið að slíkt geti átt sér stað. Ég er mjög efins um það þar sem Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi komu á fund nefndarinnar, en í stjórn samtakanna sitja að mestu leyti fulltrúar þeirra fyrirtækja sem um ræðir, og lýstu sig í raun samþykka þessari breytingu. Þetta er ekki slík fjárhæð, í ljósi þess sem þessi fyrirtæki eru að velta, að ég telji að þau fari að eltast við það, þ.e. að rekstrarhagnaður þeirra sé slíkur að þessir 2,5 milljarðar sem um er að ræða komi til með að hafa þar úrslitaáhrif.

Ég ætla ekkert að hafa þetta lengra. Málið skýrir sig sjálft. Þetta er einfalt og meiri hlutinn leggur til að þetta mál verði samþykkt eins og það liggur fyrir. Undir álitið rita hv. þingmenn Stefán Vagn Stefánsson, Hildur Sverrisdóttir, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Haraldur Benediktsson, Þórarinn Ingi Pétursson og sú sem hér stendur.