153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[15:19]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Eins og komið hefur fram þá erum við fyrst og fremst að færa þetta til, við erum að jafna þetta. Í staðinn fyrir að lægri gjöld komi á næsta ári og hærri gjöld á þarnæsta ári o.s.frv. þá er hér verið að jafna afskriftirnar í þá átt sem þær voru, þ.e. fyrningarnar. Ég tel því ekki að við séum að taka eitthvert sérstakt lán, lít eiginlega ekki þannig á það. Ég tel að þetta komi ekkert sérstaklega við þessar útgerðir af því að hv. þingmaður nefndi lánveitandann sem er þá í raun útgerðin. Ég tel að það skipti ekki höfuðmáli í þeirra rekstri að þetta sé fært til. Þetta eru ekki slíkar fjárhæðir miðað við það sem þessar útgerðir eru að velta. Ég lít svo á að við séum kannski að færa þetta dálítið nær fyrirkomulaginu eins og það var, eins og fyrirtækin hafa búið við. Ég lít svo á að þetta sé skynsamlegt og mér fannst það koma fram í umfjöllun nefndarinnar og líka hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi; þau settu sig ekki upp á móti þessu, töldu hagkvæmara að gera þetta svona en að gera þetta ekki.