153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[15:23]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur margoft komið fram í þessu máli að við erum hér að leiðrétta ákveðna hlut sem menn sáu ekki alveg fyrir þegar lög voru sett fyrir fáeinum árum. En mig langaði að spyrja hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur út í það hvernig menn hafa síðan lagt út af þessari leiðréttingu. Ég er að vísa í það sem Vinstrihreyfingin – grænt framboð sendir til að mynda frá sér í kynningarefni um það að hér sé í raun og veru verið að hækka veiðigjöld. Hæstv. matvælaráðherra hefur komið sér hjá því að svara beinum orðum spurningum sem lúta að því að það sé ekki verið að hækka veiðigjöldin, það sé í raun og veru verið að endurskoða hvernig þessar fyrningar hafi áhrif á reiknigrunninn. Auðvitað er það þannig að það er ekki verið að hækka veiðigjöldin í heildarsamhengi hlutanna. Ég vildi bara óska eftir því frá hv. þingmanni að koma kannski með sína útleggingu á því hvort ekki sé óheiðarlegt að setja hlutina fram með þeim hætti sem Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur gert í kynningarefni frá sér og í því hvernig hæstv. matvælaráðherra hefur reynt að svara spurningum með villandi hætti því að það er svo sannarlega ekki verið að hækka veiðigjöldin í heildarsamhenginu.