153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[15:29]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta atvinnuvn. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er sem sagt verið að fara í sparibaukinn. Það hefur ítrekað verið talað um að það sé verið að fletja út kúrfuna. Það er sem sagt verið að færa til á milli ára þannig að það líti ekki eins hroðalega illa út á næsta ári því að öðrum kosti fengjum við um 2,5 milljörðum minna í veiðigjöld, það liti nú alveg hroðalega illa út fyrir ríkisstjórninni að hún væri bara að lækka veiðigjöldin svoleiðis í stökkum. Þetta voru mistök sem voru gerð í lagasetningu, greinilega ekki í fyrsta skipti sem ríkisstjórnin og þeir sem setja lögin hafa ekki hugmynd um hvort þeir eru að koma eða fara í því efni. Þetta er í rauninni uppsóp, að fletja út kúrfuna þannig að það sjáist ekki svart á hvítu hvernig sveiflurnar hafa orðið á milli ára. 2,5 milljarðar á næsta ári, við munum alveg örugglega þiggja það. En það er sem sagt ekki verið að hækka veiðigjöldin um eina einustu krónu. Það er verið að fletja út kúrfuna, þetta er tilfærsla á milli ára og það er í rauninni blekking að tala um hækkun. Þetta er tilfærsla.