153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[15:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Eins og ég sagði er mikil vinna í gangi varðandi veiðigjöldin og í rauninni bara stóra kerfið okkar allt saman, ekki bara veiðigjöldin í sjálfu sér heldur kerfið allt saman. Einhverjir þingmenn hér eiga sæti í þeirri nefnd og síðan eru minni vinnuhópar líka að störfum. Ég tel ekki skynsamlegt að vera að hræra í því kerfi svona rétt á meðan við erum í þeirri vinnu. Við verðum líka að horfast í augu við það að núna, því miður, er málið auðvitað að koma seint inn og við getum ekki, alla vega ekki í tengslum við þetta frumvarp sem við erum hér með, verið að hræra í þessum gjöldum. Við erum að bíða eftir því að fá frá Skattinum 1. desember tillögu að veiðigjöldum sem þeir leggja til við ráðherra og ég er hrædd um að ef við hefðum farið í stærri umræðu um veiðigjöldin hvað þetta varðar þá hefði það tæplega náðst á svona stuttum tíma. Ég meina, við ætlum að reyna að gera þetta að lögum í dag.