153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[15:34]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla kannski að draga það til baka sem ég sagði áðan, að það væri óljóst hvaðan matreiðsla fjölmiðla kæmi um þessa meintu hækkun veiðigjalda, því að á Facebook-síðu Vinstri grænna í gær var því lýst einmitt með þeim hætti að Vinstri græn væru að hækka veiðigjöld þannig að skýringin á því liggur fyrir. Ég get tekið undir að það hefði kannski verið flókið með þann stutta tímaramma sem liggur fyrir, í tengslum við þetta mál, að fara í það að hækka veiðigjöldin. En ég spurði hv. þingmann sem formann fjárlaganefndar, af því hún hefur nú innsýn í það að það er verið að hækka alls konar gjöld önnur, áfengisgjöld, tóbaksgjöld, gjöld sem jafnvel er talin ástæða til að ætla að muni hafa áhrif á verðbólgu og hún þekkir nú held ég best allra hér inni í þingsalnum hver staðan er í ríkisfjármálunum að öðru leyti, þekkir þennan mikla, vaxandi og alvarlega halla, hvort það hafi ekki verið kitlandi við þær aðstæður að láta á það reyna í ríkisstjórnarsamstarfinu að hækka veiðigjöld.