153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[16:25]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Vissulega eru þetta viðbrögð við þeim lögum sem vitnað var í, sem breyttu því og heimiluðu að fyrna m.a. skip og skipsbúnað um 50% á ári vegna fjárfestinga árin 2021 og 2022. Þá væri hægt að skilja það sem svo að það sé verið að færa til sama horfs og áður þegar afskriftarprósentan var 20%, minnir mig, á útgerðir, sem er hærri afskriftarprósenta heldur en almennt gerist. Venjulega er hægt að afskrifa um 10%. En útgerðin er með heimild til að afskrifa meira og hraðar sem hvetur til hraðari endurnýjunar sem er jákvætt út af fyrir sig en er annað vandamál. En þessi dreifing yfir á fimm ár er varanleg breyting, ekki vegna áranna 2021 og 2022 heldur er það núna varanlegt hvernig er hægt að dreifa fyrningum sem eru umfram þessi 20% og 200 milljónir. Það er ekki bara vegna áranna 2021 og 2022, það er ekki í lagatextanum. Það er í greinargerðinni þar sem er verið að útskýra þetta með tilliti til þeirra mistaka sem voru gerð sem höfðu áhrif á lög um veiðigjöld. Þessi lagagrein sem birtist hér, 1. gr., er almenn breyting, ekki bara viðbrögð við þessu, hún kemur til með að virka næstu tíu ár hvað varðar fyrningar. Ég velti fyrir mér hvort nefndin hafi skoðað hver heildaráhrifin eru af þessu. Kannski er það þess vegna sem SFS er svona hrifið af þessu frumvarpi, hver veit? Allt sem SFS er sammála veifar rauðum flöggum hjá mér þegar allt kemur til alls.