153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[16:42]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Mér finnst þetta áhugavert því að þegar maður skoðar upprunalega textann í lögunum núna sem verið er að skipta út þá segir, með leyfi forseta:

„Til fasts kostnaðar við fiskveiðar teljast skattalegar fyrningar skipa og skipsbúnaðar og áætluð vaxtagjöld sem nema skulu sömu fjárhæð og fyrningarnar.“

Í staðinn kemur, með leyfi forseta:

„Til fasts kostnaðar við fiskveiðar teljast skattalegar fyrningar skipa og skipsbúnaðar.“

Síðan er viðbótin: „Séu skattalegar fyrningar samtals hærri en 20% af fyrningargrunni að viðbættum 200 millj. kr. skal ríkisskattstjóri dreifa því sem umfram er á næstu fimm ár.“

Svo koma þessi áætluðu vaxtagjöld, þau skulu nema sömu fjárhæð og fyrningarnar sem eru til hliðsjónar: „Áætluð vaxtagjöld skulu nema sömu fjárhæð og þær fyrningar sem lagðar eru til grundvallar útreikningi á veiðigjaldi á ári hverju.“

Þessum 20% og 200 milljónum er skotið inn í þetta sem eins konar þaki á því hversu miklu þurfi að standa skil á, sem síðan er hægt að dreifa. Ég verð að endurtaka það sem ég sagði hér áðan að þetta er varanleg viðbót í lögum um veiðigjald sem mér finnst dálítið varhugavert að sé verið að renna í gegn undir því yfirskini að verið sé að laga þessa tímabundnu Covid-fyrningu sem var gerð bara til að skófla þessum fimm árum af veiðigjöldum yfir á næsta ár, en á sama tíma gera þetta að varanlegu úrræði; varanlegri breytingu á þessum lögum á svona stuttum tíma. Það er í raun engin breyting á veiðigjöldunum hvort eð er. Það hefði verið hægt að halda lögum um veiðigjald óbreyttum og taka ekki áhættuna á því að það verði einhver slæm hliðaráhrif sem við náum ekki að skoða á svona stuttum tíma.