153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[16:45]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég óttast að þegar við erum að fara að samþykkja eða greiða atkvæði um jafn tyrfinn texta og þarna er til staðar þá geti orðið mistök. Ég óttast að við gætum gert þessi mistök. Ég vil minna á að þegar lögin voru samþykkt á árinu 2021 var tilgangurinn að auka fjárfestingu en afleidd áhrif voru þau að veiðigjald lækkaði samhliða. Maður spyr sig núna þegar maður horfir á þetta, af því að hér hefur lottóvinningur verið nefndur: Hverjir voru það sem högnuðust mest á þessu? Voru það þeir í útgerð sem þurftu mest á því að halda? Voru þeir tilbúnir í milljarða fjárfestingar á bátum og skipum eða voru það fyrirtækin sem stóðu hvað best þegar það var ákveðið að grípa til þessara aðgerða? Ég held nefnilega að staðan hafi verið sú að þeir sem voru tilbúnir í fjárfestinguna 2021 og voru væntanlega búnir að skoða hana til fjölda ára hafi grætt á þessu en aðrir ekki. Maður veltir því fyrir sér hvort þetta hafi verið sérsaumað utan um einhverjar sérstakar útgerðir sem gátu nýtt sér þessa aðgerð en hefðu hvort eð er í þessu ástandi sem var — það var búið að panta skip en vegna þessara breytinga þá gátu þær notað kaupin til að afskrifa meira og um leið fengið það sem kallað var lottóvinningur hér í þingsal í dag, fengið aukalega ekki bara afskrift heldur líka lækkun á veiðigjaldinu. Gerði hv. þingmaður sér grein fyrir því, af því að hann var hér þegar þetta átti sér stað, að þetta væri hugsanlega það sem vakti fyrir fólki?