153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[17:09]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir hennar ræðu sem var um margt áhugaverð. Hún fór vel yfir hennar sýn á það með hvaða hætti rétt væri að úthluta aflaheimildum. Mig langaði til að byrja á að fara aðeins yfir það sem hún var að nefna hér, að afskrift upp á 20% gat verið 1,2 milljarðar en hækkaði upp í 3 milljarða þegar afskriftin var heimiluð í 50%. Það er viðbót upp á 1,8 milljarða sem er flýtifyrning eða flýtiafskrift sem eykur auðvitað handbært fé og auðveldar rekstrarreikninginn. Til viðbótar fengu menn svo lækkun á veiðigjaldi sem samkvæmt mínum skilningi eru 2,5 milljarðar í heildina, sem núna er verið að dreifa á einhver ár. Því erum við í raun og veru að tala um ótrúlega mikla tilfærslu úr sjóðum almennings yfir til einstakra útgerða. Ég á svolítið erfitt með að ná utan um þetta. Þetta eru rosalegir fjármunir, 2,5 milljarðar, sem verið er að tala um og við erum að henda þessu í gegnum þingið á einhverjum ofsahraða án umsagna eins eða neins. Eitthvert munnlegt samráð var haft við heildarsamtök útgerðarmanna en ekkert var rætt við heildarsamtök sjómanna. Mig langar að spyrja: Er það ekki alveg galið verklag að fara í samþykkt laga með þessum hætti?