153. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[18:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi fyrstu spurningu hv. þingmanns í seinna andsvari um fjármuni til SÁÁ þá vil ég einungis rifja upp og benda á að við erum ekki hér að ræða tillögu til fjárlaga næsta árs þar sem sú tillaga ætti kannski miklu frekar heima — umræðu um það er einfaldlega ekki lokið — en ekki í fjáraukalögum. (Gripið fram í.) Þetta er svar mitt þótt hv. þingmaður sé kannski ekki alveg ánægður með svarið.

Varðandi seinni hluta spurningar hennar um fjármuni til hjálparsamtaka þá vil ég einungis rifja það upp, og við fórum yfir það í nefndinni, að við höfum verulega aukið fjármuni sem eru til ráðstöfunar á lið hjá félagsmálaráðherra vegna þeirra þátta sem hv. þingmaður er hér að ávarpa. Þeir fjármunir voru ekki til í fjárlögum fyrri ára. Þetta er þörf sem hefur verið mætt í fjáraukalögum, t.d. samkvæmt Covid-fjárlögum sem við setjum á sínum tíma, en við teljum einfaldlega ekki þörf á að taka undir tillögu hv. þingmanns því að það eru enn þá fjárheimildir ónotaðar í þessu skyni í umsjón hæstv. félagsmálaráðherra.