Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

skráning raunverulegra eigenda.

226. mál
[18:51]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Með alþjóðavæðingu og auknu frelsi í fjármagnsflutningum þróuðust hlutir þannig að peningaþvætti varð að alþjóðlegu vandamáli. Eins og við öll vitum er peningaþvætti undirstaða skipulagðrar glæpastarfsemi og hryðjuverka. Til að sporna við þessu hefur verið gripið til ýmissa aðgerða á alþjóðavettvangi. Í Vín árið 1988 var samþykktur samningur Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni, fíkniefnasamningurinn. Í þeim samningi var m.a. krafa um að peningaþvætti yrði gert refsivert þar sem það væri afrakstur ólöglegrar meðferðar fíkniefna. Árið 1999 kom síðan til alþjóðasamningur til að koma í veg fyrir fjármögnun fíkniefna og er Ísland aðili að báðum þessum samningum. Árið 1998 öðlaðist síðan gildi á Íslandi Evrópuráðssamningur um þvætti á illa fengnu fé og fleira, þvættissamningurinn. Hann öðlaðist gildi árið 1998 ásamt áðurnefndum fíkniefnasamningi með breytingum á almennum hegningarlögum.

Árið 1989 var síðan ákveðið í París að tilstuðlan G7-ríkjanna svokölluðu, sem voru talin sjö þróuðustu iðnríki heims, að setja á stofn alþjóðlegan vinnuhóp. Það er sá vinnuhópur sem talað er um í því frumvarpi sem við ræðum hér þar sem hann er nefndur, með leyfi forseta, alþjóðlegi fjármálaaðgerðahópurinn Financial Action Task Force eða FATF, gagngert til að koma í veg fyrir að fjármálakerfið væri misnotað með þeim hætti að þvætta illa fengið fé. Þessi vinnuhópur gaf út 40 tilmæli árið 1990 í þessum tilgangi. Síðan árið 1990 hafa níu tilmæli bæst við. Tilmælin eru hugsuð til þess að samræma aðgerðir ríkja gegn peningaþvætti. Þessi tilmæli gera skýrar kröfur til ríkja, m.a. um innleiðingu laga og ákveðna stjórnsýsluframkvæmd, en einnig á sviði refsiréttar og gagnkvæmrar lögfræðilegrar aðstoðar. Ísland gekk í þetta félag og þennan vinnuhóp, FATF, árið 1991 og skuldbatt sig þar með til að samræma löggjöf og starfsreglur á Íslandi að tilmælum vinnuhópsins. Hin svokölluðu G-20 ríki komu síðar á alþjóðlegu eftirlitskerfi en sá hópur samanstendur af Evrópusambandinu auk 19 annarra ríkja. Þessi vinnuhópur og alþjóðlegi fjármálaaðgerðahópurinn, FATF, hefur komið hingað til lands og gert ítrekaðar úttektir á stöðu mála hér á landi. Var t.d. gefin út svokölluð áhættumatsskýrsla árið 2016 og önnur úttektarskýrsla árið 2018. Helstu niðurstöður þeirrar skýrslu voru þær að innra samstarfi og samhæfingu væri ábótavant á Íslandi til að takast á við peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þetta var íslenskum stjórnvöldum vitanlega og skiljanlega mikið áfall og hefur svo sem verið ráðist í miklar aðgerðir til að bregðast við þessu.

Evrópusambandið hefur líka lagt mikla áherslu á baráttu gegn peningaþvætti og hafa verið samþykktar fimm tilskipanir á vegum Evrópusambandsins sem eru samhljóða þessum tilmælum FATF, sem eru 49 talsins. Vinna þessa vinnuhóps er leiðbeinandi á heimsvísu og Evrópusambandið hefur tekið tillit til þess. Þessar tilskipanir hafa verið leiddar í lög á Íslandi en fyrsta tilskipunin var innleidd með lögum nr. 80/1993, sem ekki eru lengur í gildi, og með breytingum á hegningarlögum sömuleiðis, nr. 19/1940. Önnur tilskipun var innleidd með lögum um peningaþvætti, nr. 42/2003. Þriðja tilskipunin var innleidd með lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka árið 2006, en með þeirri löggjöf féllu brott lögin frá 1993. Fjórðu peningaþvættistilskipun Evrópuþingsins og ráðsins frá 2015 var ætlað að taka við af þriðju peningaþvættistilskipuninni og tilefni hennar var raunar hryðjuverkaárásir í Frakklandi og Belgíu auk gagnalekans sem við þekkjum vel og kenndur er við Panama-skjölin. Tilgangur þeirrar tilskipunar er að koma í veg fyrir peningaþvætti með því að virkja þá aðila sem stunda starfsemi sem helst kann að vera misnotuð. Með þessari tilskipun var formföstu eftirliti breytt í matskenndara eftirlit sem byggist á einstaklingsbundnu áhættumati. Hún var innleidd ásamt hluta af fimmtu tilskipuninni með lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018.

Þetta er sem sagt forsagan að þessum alþjóðlega vinnuhópi. Þetta er sannarlega mjög mikilvægt starf og mikilvægt samstarf. Það hefur verið áhrifaríkt og þessi tilmæli og annað sem lagt hefur verið fram hefur haft gríðarlega mikil áhrif og gert gagn í baráttu gegn peningaþvætti og skipulagðri glæpastarfsemi. Svo er ýmislegt annað sem hefur orðið til þess að hafa áhrif á þróun mála. Árið 2016 var evrópsk persónuverndarlöggjöf samþykkt. Nú vil ég aðeins fara yfir í annað til að leiða að punktinum með þessari ræðu minni. Þessi persónuverndarlöggjöf var byltingarkennd. Hún kom til framkvæmda árið 2018 hér á landi þegar þessi nýja reglugerð Evrópusambandsins var innleidd og leysti af hólmi þágildandi Evrópulöggjöf. Með þessari persónuverndarlöggjöf þurftu í kjölfarið og þurfa í dag öll fyrirtæki, stofnanir og aðrir sem vinna með persónuupplýsingar einstaklinga, hvort heldur sem um er að ræða viðskiptavini, notendur hugbúnaðar, nemendur eða starfsfólk, að fylgja þessari nýju löggjöf. Allir, alls staðar. Þetta nýja regluverk markaði algjör tímamót í sögu persónuverndarlöggjafar í Evrópu og voru reyndar uppi raddir og efasemdir um að þetta væri óframkvæmanlegt þegar þetta var lagt til til að byrja með. En um er að ræða umfangsmestu endurbætur sem gerðar hafa verið á persónuverndarlöggjöf í langan tíma og má segja að þessi bylting, sem sannarlega varð bara upphaflega á evrópskri persónuverndarlöggjöf, hafi í stað þess að einangra Evrópu eins og margir lýstu áhyggjum af orðið til þess að hafa áhrif á persónuverndarlöggjöf í öðrum ríkjum og í rauninni hegðun annarra ríkja, m.a. Bandaríkjanna, þegar kemur að persónuverndarmálum, þar sem staða Evrópuríkja var nógu sterk á alþjóðavettvangi, t.d. í alþjóðlegum viðskiptum og á veraldarvefnum, til þess að knýja í rauninni t.d. bandarísk fyrirtæki til að fylgja þessari Evróputilskipun. Þegar sú sem hér stendur var t.d. að leita að einhverju góðu málaskráningarforriti þegar ég var í lögmannsrekstri í skamma stund áður en ég settist á þing þá voru ýmis forrit bandarísk. Þá hafði ég áhyggjur af því að það væri ekki nægilega mikið öryggi innbyggt í þessi kerfi til að gæta þeirra gríðarlega viðkvæmu persónuupplýsinga sem lögmenn þurfa gjarnan að fara með. Ég var bundin af þessum reglum og þessari persónuverndarlöggjöf, íslensku og evrópsku, varðandi þau gögn og þær upplýsingar sem ég var með. Það sem kom mér ánægjulega á óvart var að langflest fyrirtæki og þau forrit sem ég kannaði og vildi láta reyna á sögðu öll, þessi bandarísku fyrirtæki, að þau þyrftu að fylgja þessari Evróputilskipun vegna þess að öðruvísi gætu þau ekki haldið viðskiptum sínum og haldið þessu uppi, gætu ekki átt nein viðskipti við Evrópubúa nema bara að gjöra svo vel að fylgja þessum reglum. Það var mjög ánægjulegt.

Tilgangurinn með þessari heildstæðu löggjöf var auðvitað að veita einstaklingum betri vernd, færa fólki ákvörðunarrétt yfir persónuupplýsingum sínum og fela einstaklingum stjórn á því hver vinnur upplýsingar um þá, hvenær og í hvaða tilgangi. Það voru ekki síst áskoranir örrar tækniþróunar sem kölluðu á þessa endurskoðun, sem var sannarlega byltingarkennd, og lagði þetta auðvitað ýmsar skyldur á fyrirtæki og allt og alla, allar stofnanir og alla þá aðila sem vinna með persónuupplýsingar. Geta brot gegn þessum reglum varðað háum sektum og haft miklar afleiðingar.

En það sem helst varðar það mál sem við ræðum hér í dag og hefur með þetta að gera er sú þróun sem varð fyrir skömmu síðan vegna dóms sem féll þann 22. nóvember sl. hjá Evrópudómstólnum þar sem tilskipun, sem ætlað var að sporna gegn peningaþvætti og auka gagnsæi í viðskiptum fyrirtækja og á þessum vettvangi, var dæmd ógild. Í kjölfarið gaf Transparency International út yfirlýsingu og lýsti miklum áhyggjum af þessum dómi og þessari þróun. Það sem dómurinn kvað á um, með mikilli einföldun, var að þessi tilskipun sem skyldaði fyrirtæki til að birta upplýsingar um skráða eigendur og annað og veitti almenningi í rauninni aðgang að upplýsingum um skráða eigendur fyrirtækja, var dæmd ógild vegna persónuverndarsjónarmiða. Í yfirlýsingu Transparency International kemur fram að í tíu ár hafi félagið og önnur félagasamtök verið að berjast fyrir auknu gagnsæi í eigendaskipan, sérstaklega stórra fyrirtækja og fjölþjóðlegra. Um langt skeið var mikið um það að aðilar væru að leita leiða til að komast í kringum alla löggjöf og reglur sem ætlað var að sporna við spillingu með því að nota nafnlaus fyrirtæki sem enginn vissi hver átti eða hver stjórnaði. Það var mikil bylting þegar tókst að draga þessa nafnlausu eigendur í dagsljósið en þeirri þróun hefur verið ógnað með þessum dómi Evrópudómstólsins frá 22. nóvember 2022. Þar var komist að þeirri niðurstöðu, eins og fyrr segir, að þetta fyrirkomulag, þessi tilskipun sem tryggði almenningi aðgang að upplýsingum um raunverulega eigendur fyrirtækja, væri í rauninni ógild, eða tiltekin ákvæði þessarar tilskipunar voru dæmd ógild vegna þess að þau gengu gegn persónuverndarlöggjöf.

Málið var byggt á því af hálfu stefnenda að þetta gengi í rauninni gegn rétti eigenda til einkalífs og dómstóllinn féllst á það. Sérfræðingar hjá Transparency International bentu á að aðgangur að upplýsingum um eigendur fyrirtækja sé algerlega nauðsynlegur til að bera kennsl á og stöðva spillingu og peningaþvætti. Því fleiri sem hefðu aðgang að þeim upplýsingum, því fleiri væru tækifærin til að sjá heildarmyndina og koma henni saman, tengja punktana og sjá hvað er í gangi. Það hefur sýnt sig í mörgum ríkjum, alveg frá Tékklandi, Danmörku og Túrkmenistan, að aðgangur almennings að þessum upplýsingum hjálpaði mjög mikið til við að afhjúpa ólöglega starfsemi, spillingu og annað slíkt. Því er það mat Transparency International að þessi dómur Evrópudómstólsins færi okkur í raun aftur á bak um mörg ár eftir margra ára þróun og baráttu sem leiddi til þess gagnsæis sem hafði verið náð og hefur verið náð í þessum málum.

En það er ekki öll von úti. Dómstóllinn viðurkenndi í þessum dómi sínum að frjáls félagasamtök, fjölmiðlar og aðrir aðilar sem gegna mikilvægu hlutverki í lýðræðissamfélagi gætu haft lögmæta hagsmuni af því að fá aðgang að þessum upplýsingum að gefnu hlutverki þeirra í baráttunni gegn peningaþvætti. Það er því ansi þröngt og í rauninni telur Transparency International ekki að þetta aðgengi dugi til að tryggja þetta aðhald þar sem það sé aðgengi almennings almennt sem hafi orðið til þess að þetta gagnsæi hefur í rauninni virkað til að afhjúpa spillingu, þar sem oft er um gríðarlega flókin tengsl og flókin mál að ræða. Þetta er auðvitað bara nýskeð, ekki eru liðnar margar vikur frá því að þessi dómur féll. Við eigum eftir að sjá hvernig þróunin verður en það er alveg ljóst að þetta er áhyggjuefni og eitthvað sem við þurfum kannski að vera meðvituð um í ljósi þeirrar löggjafar sem við erum að fjalla um hér í dag, þar sem við erum að tala um lög sem gera skráningu svokallaða raunverulega eigendur fyrirtækja að skyldu, ekki bara skráningu eigenda heldur þeirra sem raunverulega að standa að baki fyrirtækjunum. Það var auðvitað mikil réttarbót þegar því gagnsæi var komið á.

Ég vildi koma og benda á þetta og vekja athygli á þessari þróun sem skiptir máli í þessu samhengi og við þurfum að vera meðvituð um og getur vel verið að muni kalla á viðbrögð löggjafans. Það má auðvitað búast við því að viðbrögð verði hjá Evrópusambandinu til að bregðast við þessu en hver þau viðbrögð verða vitum við auðvitað ekki. Ég hvet hæstv. ríkisstjórn til að setja sig inn í þetta og tryggja að samspil þessara tveggja mikilvægu löggjafarsviða verði ekki til þess að auka möguleikann á peningaþvætti og spillingu.