Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

Störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Hv. umhverfis- og samgöngunefnd heimsótti Orkustofnun í morgun. Þar var rætt vítt yfir sviðið um orkuskipti og annað og líka fræðst um orkuskiptaspá.is, sem er nýtt orkuskiptalíkan sem Orkustofnun setti á fót, þar sem er hægt að setja inn mismunandi forsendur fyrir því sem þarf til að ná orkuskiptum og til þess að Ísland geti náð markmiðum sínum, sem og hvaða breytur hafa áhrif á það. Ég hvet þingheim til að vera duglegan við að nota þetta.

Þegar við ræðum þessi mál þá þarf að hafa mörg önnur mál í huga og taka ákvarðanir um þau. Umræðan snýst auðvitað núna um aðgerðir í loftslagsmálum, sem eru mikilvægar, þar sem við höfum skuldbindingum að gegna. Þetta hjálpar okkur við að sjá hvað við þurfum að takast á við þar. Að sjálfsögðu er þetta stórt jafnréttismál og snýst líka um jafnrétti byggðanna. Hvernig ætlum við að tryggja að byggðir landsins hafi jafnt aðgengi að orku? Þá þurfum við að taka stórar ákvarðanir varðandi dreifingu og öflun orku og annað slíkt. Einnig megum við ekki gleyma orkuöryggi í stóra samhenginu, þ.e. bæði orkuöryggi hér innan lands þegar upp koma óveður, jarðhræringar, flóð o.fl. og svo líka orkuöryggi út frá heimsmyndinni sem við búum við í dag. Því skiptir miklu máli að við séum tilbúin í störfum Alþingis að taka þessar stóru ákvarðanir og láta ekki of langan tíma líða í að karpa um málið eða ræða það fram aftur. Við verðum að taka ákvarðanir og koma aðgerðum af stað.