Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:19]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Ég hafði mjög gaman af ræðu hv. þingmanns og líka ummælum hans fyrr í umræðunni varðandi það að ríkisstjórnin fer dálítið glannalega við efnahagsstýrið. Þá langaði mig til að bæta aðeins inn í umræðuna og við ræðu hv. þingmanns hvernig þetta er búið að þróast núna frá fjármálaáætlun þar sem frumjöfnuður — og tölur, afsakið — átti að vera -0,6% af vergri landsframleiðslu. Í frumvarpi 2023 var hann -0,7. Hvað er hann núna eftir breytingartillögurnar? Það kom nú ný þjóðhagsspá og fullt af aukatekjum. Hvað ætli hann sé núna? -1,1%, jókst um næstum það sem hann átti að vera samkvæmt fjármálaáætlun. Meiri halli. Vaxtajöfnuður átti að vera 1,5% í mínus í fjármálaáætlun og fór niður í 1,6 í frumvarpinu. Hvað er hann núna? 1,9% í mínus, enn þá meiri halli þar. Hvað með heildarjöfnuð? -2,1% af vergri landsframleiðslu í fjármálaáætlun. -2,3% í fjárlagafrumvarpinu, aðeins bætt í þar. Hvar er hann núna? -3%. Þar kemur þetta sem hv. þingmaður er einmitt að benda á, hvaða áhrif þetta á eftir að hafa á allt annað hjá okkur, þessi aukni halli. Og þetta er þrátt fyrir þá efnahagssveiflu sem ríkisstjórnin fær nú í fangið fyrr en var búist við, þá er samt keyrt í meiri mínus. Það er dálítið undarlegt. Það er mjög undarlegt. Það þarf að gera hvort tveggja, það þarf að hafa aðhald í útgjöldum, alveg tvímælalaust, en það þarf líka að huga að þeim stöðum í efnahagskerfinu þar sem fjármagnið hefur safnast saman út af innspýtingu stjórnvalda þar sem þau þurfa, svipað og eftir efnahagshrunið, að ná dálitlu til baka (Forseti hringir.) þar sem hefur safnast saman fjármagn út af aðgerðum stjórnvalda.