Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:21]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni andsvarið. Það er auðvitað þannig að það eyðist sem af er tekið og þegar hærra hlutfall fer til þeirra þátta sem hv. þingmaður taldi hér upp þá er minna eftir til skiptanna, til annars, sérstaklega hluta sem gagn er að. Ég nefndi í ræðu minni áðan að breyting á milli um 1. og 2. umr. hefði væntanlega sjaldan verið viðlíka og núna nema ef mögulega væri í meðförum fjárlagafrumvarps ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar 2007, 2008, án þess að ég hafi skoðað það sérstaklega. En mismunurinn þá og nú er að þá var afgangur af fjárlögum. Núna erum við að sigla í 119 milljarða halla á ári og það er ekki í plönum að koma ríkissjóði úr hallarekstri fyrr en 2027. Þetta er algjör grundvallarmunur á stöðunni. Manni þótti nóg um þarna á sínum tíma, 2007, 2008, en þá var alla vega, ef svo má segja, borð fyrir báru fjárhagslega sem er alls ekki núna. Þetta lýsir einhverju, ég leyfi mér að segja metnaðarleysi eða jafnvel hræðslu, að ætla að teygja þetta tímabil svona langt inn í framtíðina. 2027 er á næsta kjörtímabili, um það mitt, nema það verði kosið fljótlega, sem er ekki útilokað. En það að við séum í þeirri stöðu að stjórnvöld séu búin að sætta sig við það að hér verði hallarekstur til 2027, við séum að horfa á 119 milljarða hallarekstur á næsta ári, á sama tíma og útgjöld vaxa að teknu tilliti til einskiptisútgjalda síðasta árs um rúma 180 milljarða, þetta er einhver furðu nálgun, því miður, sem við stöndum frammi fyrir. Ég er ekki með fjármálaáætlunartölurnar tiltækar þannig ég treysti mér ekki í samanburðinn en ég tel mig vita að þessar tölur séu nákvæmlega eins og hv. þingmaður þær taldi upp.