Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:30]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það má til sanns vegar færa að fjárlögin 2016 hafi verið hin ágætustu án ríkisstjórnar enda sýnist mér á mörgu að eitt og annað væri í betri farvegi í dag án ríkisstjórnar en með hana, ef við þingmenn hér tækjum að okkur að leysa málið í staðinn fyrir að fá „ordrurnar“ úr Stjórnarráðinu. En til að ég vindi mér beint að því með hvaða hætti væri hægt að draga úr útgjöldunum þá nefndi ég í samhengi hlutanna örmál hér áðan. Ég nefndi þau af því að þau eru þekkt úr umræðunni. Það eru þættir sem við gætum gengið til, eins og t.d. umbreyting ríkiseigna, sem væri þá nýtt til þess að greiða niður þann mikla skuldastabba sem á ríkissjóði hvílir. Það hefur verið nefnt hér, kom fram í svari fjármálaráðherra, að ég held, við fyrirspurn hv. þm. Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur, að í bankakerfinu einu og sér lægi, ef ég man rétt, eignarhlutur upp á tæpa 400 milljarða, 387, ef ég man tölurnar rétt, í námunda við það. Nú er búinn að vera mikill vandræðagangur með eftirstöðvar hluts í Íslandsbanka þar sem liggja, ef ég man rétt, rétt um 100 milljarðar, í þeim hlut einum og sér sem ráð hafði verið gert fyrir að selja. Umbreyting þeirrar eignar færð til lækkunar skulda myndi strax hafa mikil áhrif á vaxtaþátt fjárlaga. Á meðan við ræðum hér armslengdarsjónarmið hin ýmsu og forsætisráðherra lýsir því yfir efnislega að stjórnvöld geta ekki nýtt eignarhlutinn í Landsbankanum til að ná fram neinum markmiðum þá hlýtur maður að spyrja sig: Bíddu, til hvers eigum við hlutinn þar? Bara til að nefna stóra atriðið sem hefði veruleg áhrif. Síðan er auðvitað endalaus fjöldi atriða þarna inni á milli, í umfangi á milli liðskiptaaðgerða … og síðan þess að umbreyta ríkiseignum og lækka heildarskuldir ríkissjóðs og þar með vaxtagreiðslur.