Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:04]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Hér talar hv. þingmaður um fjárlög þar sem komið er til móts við hina og þessa. Mig langar til að spyrja: Af hverju var það ekki gert við framlagningu frumvarpsins? Hvernig gerist það að ráðherrar púsla saman frumvarpi þar sem ekki er komið til móts við hina og þessa, ekki lagðar fram hækkanir til löggæslu og heilbrigðisþjónustu en það gert svo þremur mánuðum seinna? Og hvernig gerist það að meiri hluti fjárlaganefndar bætir við 2,7 milljörðum í viðbót? Er það ekki einhvers konar vantraustsyfirlýsing á ráðherrana sem komu ekki með þessa 2,7 milljarða viðbót, eða eru ráðherrar að reyna að komast fram hjá kerfinu á einhvern hátt? Ég átta mig ekki alveg á því hvernig þessi fjárlög gátu verið gerð á þann hátt sem raun ber vitni. Ég skil að það kom ný þjóðhagsspá í nóvember, í síðasta mánuði, sem breytir stöðunni tekjulega séð. En ég skil það samt ekki í rauninni útgjaldalega séð. Það var alltaf verið að tala um að við ætluðum að vaxa úr kreppunni og ég myndi halda að framlögin sem áttu að fara í heilbrigðiskerfi og löggæslu og ýmislegt svoleiðis í haust hefðu verið óháð því sem búist var við í þjóðhagsspá, að það ætti samt að vera á þeim stað og einnig miðað við fjármálastefnu. Fjárlagafrumvarpið eins og það var lagt fram í haust var bara ekkert samkvæmt fjármálastefnu og ýmsu öðru og ég skil ekki hvernig Alþingi gat leyft ríkisstjórninni að komast upp með það að skila fjárlagafrumvarpi eins og við fengum í hendurnar í haust sem gerði vinnu okkar bara mjög erfiða, það var erfitt að átta okkur á því hver staðan var í raun og veru. Núna fá umsagnaraðilar ekki tækifæri til að bregðast við réttri stöðu eða alla vega að mati ríkisstjórnarinnar.