Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:07]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það eru eflaust mjög margar ástæður fyrir því að þessi fjárlög komu fram með þessum hætti og þessar breytingartillögur komu seint fram. Ég get ekki staðið hér og svarað fyrir alla ráðherra ríkisstjórnarinnar, af hverju þeir komu með þessa hluti svona seint fram. Það eru eflaust gildar og góðar ástæður fyrir því að flestu leyti en ég held að það fari betur á því að þeir svari fyrir það sjálfir. Hins vegar varðandi þær breytingartillögur, þá 2,7 milljarða sem hv. þingmaður nefnir hér að fjárlaganefnd hafi komið með og gert breytingartillögur um, hvort það sé á einhvern hátt einhvers konar vanvirðing við eða vantraust á ráðherrana, þá er það alls ekki svo. Það er það alls ekki. Þetta eru einfaldlega tillögur sem fjárlaganefnd fannst tilvalið að gera og vildi gera enn betur en ráðherrarnir höfðu lagt til og það er á engan hátt hallað á þá á einn eða neinn hátt. Í þessum 2,7 milljörðum er m.a. fjárbeiðni frá Alþingi sem hafði gleymst að koma inn. Það eru 400 milljónir út af orkumálunum, frá því ráðuneyti, þannig að það er ýmislegt þarna sem er hægt að tiltaka sem skýrir þessa 2,7 milljarða sem fjárlaganefndin setti inn. En af hverju þetta kemur nú með þessum hætti og í þessu magni inn get ég ekki úttalað mig um hér.