Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:16]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil bara byrja á því að hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Ég get bara tekið undir þær áhyggjur sem þingmaðurinn er með. Það er alveg ljóst að það er allt rétt og satt sem hér kemur fram varðandi umsögn Sjúkratrygginga Íslands og ég hef svo sem litlu við það að bæta öðru en því að það er bara mjög mikilvægt að Sjúkratryggingar Íslands séu fjármagnaðar eins og þarf og mjög mikilvægt að það sé gert. Ég hef trú á því að ráðuneytið muni fara mjög vel ofan í það hvernig þeir geta komið til móts við þessar kröfur Sjúkratrygginga. Hvort það hefði ekki verið hægt að finna fjármagn hér í þessum breytingartillögum — það hefði eflaust verið hægt að bæta við fjármagni í ansi marga liði, hvort sem það er innan heilbrigðiskerfisins eða löggæslunnar, fangelsismála, af því að þau komu upp áðan og miklu, miklu fleiri, almannatrygginga og fleiri. En þetta er niðurstaðan og hún er sú að hér hefur verið bætt inn tæplega 17 milljörðum í heilbrigðiskerfið, sem ég held að sé einhver mesta viðbót sem við höfum séð í langan tíma. En ég held, eins og ég sagði hérna áðan, að við getum alltaf gert betur og eigum að gera betur og það verður fróðlegt að sjá hvernig ráðherrann ætlar að fara með það gat sem upp á vantar fyrir Sjúkratryggingar og ég deili þeim áhyggjum með þingmanninum.