Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:18]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristrún Frostadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég átta mig auðvitað á því, eins og hv. þingmaður segir, að það er alltaf hægt að setja meira fjármagn á ákveðna staði en ég legg áherslu á þetta vegna þess að stjórnarliðar og hæstv. ríkisstjórn hafa talað mikið um mikilvægi þess að við séum ekki með sóun í kerfinu og sparnað og sums staðar á jaðrinum getur borgað sig að gefa stundum aðeins í. Ég velti því sérstaklega upp núna í tilviki Sjúkratrygginga af því að við vitum til að mynda að þetta snýst ekki bara um rekstrarfé heldur líka um fjármagnið inn í samninga við sérfræðilækna. Nú er fátækasta fólkið í landinu að taka á sig þetta samningsleysi og ég hef sjálf áhyggjur af orðum fjármálaráðherra sem virðist einhvern veginn skella skuldinni af samningsleysi á fyrrverandi forstjóra Sjúkratrygginga, eins og það hafi ekkert með fjármagn að gera. En mig langar að bæta við í þessu samhengi, af því að hv. þingmaður kom inn á stöðu fangelsismála, að núna hefur Framsóknarflokkurinn talað fyrir farsældarhugsjóninni, farsældarfrumvarpinu, snemmtækri íhlutun og að koma í veg fyrir að kostnaður skapist annars staðar í kerfinu. Þetta er ekki eitthvert gæluverkefni. Fangelsismálin eru líka, og má í rauninni bara skilgreina sem velferðarverkefni að því leytinu til að við erum að reyna að ná betrun á þeim einstaklingum sem þar sitja inni. Við vitum af umsögnum og fundum við Fangelsismálastofnun að þrátt fyrir að þau hafi beðið um 250 millj. kr., sem var og veitt, þá lá fyrir að uppsafnað tap eða niðurskurður um 280 milljónir síðan 2012 án verðbóta og þau vita að strax á næsta ári kemur 50 millj. kr. aðhaldskrafa. Þau eru því strax komin í 330 milljónir á næsta ári, þrátt fyrir 250 millj. kr. framlag. Í ljósi reynslu hv. þingmanns, til að mynda úr löggæslu, og mikilvægis þess að þessi kerfi spili saman, telur hann að við munum standa aftur í þeirri stöðu hér eftir ár að fá Fangelsismálastofnun inn á borð hv. fjárlaganefndar?