Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:20]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta síðara andsvar. Ég gæti staðið hér og talað við hv. þingmann í marga klukkutíma um forvarnir og snemmtæka íhlutun. Þetta er gríðarlega mikilvægt verkefni hvar sem er í kerfinu. Ég er algerlega sannfærður um að það fjármagn sem við setjum í þetta, hvort sem við köllum það snemmtæka íhlutun eða forvarnir, mun skila sér margfalt, margfalt til baka á seinni stigum. Það er alveg sárgrætilegt til þess að hugsa að hafa hér eftir hrun, af því að hv. þingmaður vitnar í mína fyrri starfsreynslu sem lögreglumaður, þurft að horfa upp á það í hverju einasta lögregluembætti landsins að það fyrsta sem var skorið niður voru forvarnir. Ég er algerlega sannfærður um, ég er engin undantekning þar, svo það sé sagt, að það mun koma og hefur komið hressilega í bakið á okkur og það fjármagn sem þar var sparað, því var illa varið. Við erum búin að þurfa að bíta úr nálinni með það hér síðar.

Varðandi það hvort Fangelsismálastofnun muni vera hér aftur á næsta ári með svipaðan beiðni þá vona ég svo sannarlega ekki. Ef það gerist, að fangelsismálayfirvöld þurfa að koma hingað aftur og staðan verður sú sama og er uppi núna, þá er það alveg ljóst í mínum huga að við þurfum að fara í einhverja mjög nákvæma endurskoðun á því kerfi sem þar er. Það er ekki boðlegt að forstöðumenn jafn mikilvægra stofnana og fangelsa þurfi að standa hér ár eftir ár með einhvern betlistaf í hendi fyrir Alþingi eða fjárlaganefnd einfaldlega til þess að geta rekið stofnanir sínar sómasamlega. Það er ekki boðlegt og þurfum við bara að taka á því ef af því verður.