Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[18:49]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nú gjarnan draga fram viðreisnarstjórnina frá 1959–1971 af því hún þorði að taka mjög framsýnar ákvarðanirnar. Hún breytti umhverfinu, hún opnaði samfélagið. Í dag finnst okkur það kannski ekkert mjög opið en hún tók stórstíg skref í átt að því að opna samfélagið og vann okkur t.d. inn í EFTA, Fríverslunarsamtök Evrópu, 1970 og byrjaði að losa um ákveðin höft sem voru mjög innan lands. Höft sem þjónuðu hverjum? Ákveðnum hagsmunahópum, einhverjum sérhagsmunahópum. Enn þann dag í dag eimir af því að mínu mati á þeim sviðum sem ekki falla undir EES-samninginn. Og hvaða þættir falla ekki undir EES-samninginn? Það eru sjávarútvegur og landbúnaðar. Þar erum við að sjá ákveðna meiri hagsmunagæslu heldur en annars staðar. Þar er fákeppnin og það sama gildir um þætti sem á óbeinan hátt falla ekki undir EES-samninginn, en náttúrlega starfsemi þeirra gerir það, og það eru bankar og fjármálaþjónusta. Ég segi á óbeinan hátt af því að við erum ekki með evruna og af því að við erum ekki með evruna er ekki samkeppni á þessu sviði, í fjármála- og tryggingaþjónustu.

Þannig að þegar hv. þingmaður spyr um að hlusta þá hefur þetta minnkað síðastliðin 15 ár að einhverju leyti, þetta samtal á milli. Ég myndi segja að síðustu fimm ár — það er ekki þannig að það sé allt alslæmt en ég held bara að það fari svo mikill kraftur í það að halda ríkisstjórninni saman og allir þurfa að fá sitt að það er ekkert svigrúm eftir í samtal þvert yfir hið pólitíska litróf. Til hvers leiðir það? Það leiðir til þess að við erum komin í óefni í málum sem eru gríðarstór. Ég held að við getum náð samstöðu eins og t.d. um útlendingamálin. En í staðinn fyrir að eiga þetta samtal, eins og var gert (Forseti hringir.) á sínum tíma, þá er bara klessukeyrt á allt og alla. Við getum tekið fleiri dæmi, (Forseti hringir.) eins og t.d. sjávarútvegsmálin. Það er hægt að ná meiri samstöðu um þessi mál heldur en nú er gert.