Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:44]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir gott og hnitmiðað svar. Ég ætla að fá að taka undir með hv. þm. Ingu Sæland. Þetta eru frábærar hugmyndir. Nú er ég varaþingmaður þannig að ég er ekki alltaf inni á þingi þegar þessi mál eru rædd en ég er inni í þessum efnum því að ég sit í hv. velferðarnefnd. Ég ætla bara að taka undir það sjónarmið að það sé ekki gengið nógu langt í þessum efnum. 200.000 kr. frítekjumark er gott og gilt. Þetta er frábært skref og vissulega í rétta átt. En hugmyndin um að öryrkjar megi fara á vinnumarkaðinn og vinna eins og þeim sýnist, hvað er svona róttækt við það? Er ekki bara verið að skapa hvata fyrir fólk til að komast aftur út á vinnumarkaðinn? Ég er sammála hv. þingmanni um að það væri hægt að gera þetta allt öðruvísi og sama með endurhæfingarlífeyrinn. Það hafa viss sjónarmið komið fram varðandi þetta frumvarp. Auðvitað er þetta að einhverju leyti viss bót inn í almannatryggingakerfið en það hafa komið sjónarmið fram um að þetta spili smá inn í það að fólk festist lengur í þessu kerfi, endurhæfingarlífeyriskerfinu, og geti svo ekki farið á örorkubætur. Það er smá vítahringur sem skapast sem hefur áhrif á endurhæfingu manneskjunnar, að þurfa alltaf að sækja um aftur og aftur og festast í þessu óskilvirka kerfi sem er svo rosalega hægt og veldur fólki kvíða. Þetta veldur fólki kvíða, það veit ég af eigin raun. Mig langaði bara að spyrja hv. þingmann — nú man ég ekki hvað ég ætlaði að spyrja hv. þingmann út í. (Gripið fram í.)— Ég held það nefnilega. Ég man ekki um hvað ég ætlaði að spyrja en þetta voru frábærir punktar sem komu fram.