Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:55]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvar. Það er alveg rétt að við höfum gjarnan sagt þegar við erum að tala t.d. um almannatryggingakerfið, ég og hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson, að það þurfi að núllstilla þetta kerfi algjörlega og byggja það upp á nýtt því að það er ekkert nema plástur og aftur plástur. En við í Flokki fólksins erum með frumvarp til laga um að fara að skattleggja inngreiðslur í lífeyrissjóði þannig að þegar tekið er af okkur núna í lífeyrissjóð greiðum við skattinn af því strax. Þetta myndi gefa ríkissjóði á milli 60–70 milljarða í kassann á hverju einasta ári. Við skulum átta okkur á því að lífeyrissjóðirnir eiga hér á sjöunda þúsund milljarða. Það eru alltaf fleiri hendur sem er að koma að störfum hér og þurfa að vinna hér. Hvers vegna í ósköpunum skyldum við ekki afnema skerðingar og afnema skattlagningu á fátækt með því að gefa okkur kost á að greiða strax til samfélagsins við staðgreiðslu, við innborgun í lífeyrissjóðina? Margir hverjir eru jafnvel dánir áður en kemur að útborgun úr sjóðunum þannig að þá fer það bara í hítina, alltaf hreint í hítina og hverfur bara. Alveg eins og margir sem verða sjúklingar einhvers staðar á lífsleiðinni, veikjast og annað slíkt og þurfa að fara að nýta sér lífeyrissparnaðinn sinn, það sem þeir eiga í lífeyrissjóðum. Þeir hefðu gjarnan og þúsund sinnum frekar viljað vera búnir að greiða staðgreiðsluna. Við vitum aldrei hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Ég er búinn að tala við hundruð manna. Ég held að ég spyrji nánast alla sem hafa greitt í lífeyrissjóði hvort þeir hefðu viljað greiða við innborgun í sjóðinn og eiga þá ekki eftir að greiða skatt eftir á eða öfugt og allir vildu vera lausir við þetta eftir á. Þannig að ég segi: Við vorum að selja Íslandsbanka í hneyksli og eins og ég myndi segja í alls konar rugli, státandi af mikilli innkomu upp á 53 milljarða fyrir Íslandsbanka. Við værum hér að fá meira á hverju einasta ári heldur en þessi einskiptisaðgerð í þessari hlutasölu í Íslandsbanka gaf akkúrat núna. Hver vill það ekki? Flokkur fólksins vill það a.m.k.