Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:57]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér fjárlögin sem eru eitt af stóru málunum sem við tökumst á við á Alþingi. Auðvitað er það alltaf spurningin um hvað við setjum mikla stefnumörkun í fjárlögunum og svo hversu mikið af stefnumörkuninni fer í fram í löggjöfinni og í framkvæmd hennar. Fjárlögin skipta mjög miklu máli á mörgum sviðum og það sem við þurfum að horfa helst á núna er að þetta séu ábyrg fjárlög sem vinna með því efnahagsástandi sem er uppi. Við þurfum því að vera ábyrg og tryggja þetta. Hér hafa verið miklar umræður um þá sem minna hafa milli handanna og þá skiptir náttúrlega stöðugleikinn og sem lægst verðbólga og annað slíkt langmestu máli fyrir þann hóp. Því skiptir miklu máli að við séum með ábyrgan ríkisrekstur og þótt útgjöldin séu að aukast og maður hefði viljað sjá meiri hömlur, ef það má orða það svo, á útgjaldaaukningunni þá kemur á móti að við erum á sterkum rekstrargrunni og tekjurnar eru að aukast um leið. Ábyrgð í ríkisfjármálum hefur verið mikil þannig að heildarefnahagstölurnar eru í lagi og sýna ábyrga efnahagsstjórn og ábyrg fjárlög sem skiptir gríðarlega miklu máli, eins og ég kom inn á. Við verðum að ná tökum á verðbólgunni til að tryggja hag heimilanna og þeirra sem minnst hafa á milli handanna fyrst og fremst en að sjálfsögðu fyrir þjóðfélagið í heild sinni, hvort sem það eru heimilin eða atvinnulífið. Ég held að við séum að ná því hér og þá er það svolítið okkar verkefni þegar þeim forsendum er náð að vera með ábyrg fjárlög og skoða hvernig við forgangsröðum þeim fjármunum sem við höfum, skattfé almennings, til góðra verka í þágu samfélagsins í heild sinni. Það er spurningin sem við erum með hér. Við verðum að reyna að spila vel úr þeim fjármunum vegna þess að því hagkvæmari sem við getum haft rekstur ríkissjóðs, þeim mun minni álögur þurfum við að setja á hinn almenna borgara og á atvinnulífið. Ég held að það skipti gríðarlega miklu máli að gefa fólkinu aukið svigrúm og frelsi til að ráðstafa fjármunum sínum sjálft og lifa sjálfstæðu lífi og lifa með reisn og þar skiptir miklu máli að hafa álögurnar sem lægstar.

Við viljum líka hafa öfluga grunnþjónustu og almannaþjónustu og ég held að það sé eitt af frumhlutverkum ríkisins að hafa það í lagi. Grunnþjónustan er að sjálfsögðu heilbrigðismálin, félagsmálin, almannatryggingarnar og menntakerfið, skólarnir, lögreglan og öryggisstofnanir og ekki síst innviðir. Innviðirnir eru alveg gríðarlega mikilvægir í þessu líka, að við höfum hér öfluga innviði. Og hverjir eru helstu innviðirnir? Þar skipta samgöngur miklu máli. Þær eru bæði stórt velferðarmál, jafnréttismál og mikið öryggismál, en ég hef líka trú á því að allar samgöngubætur auki hagvöxt. Við höfum náttúrlega búið núna við mikinn hagvöxt og við þurfum að tryggja að svo verði áfram. Svo eru það líka orkuinnviðirnir sem skipta miklu máli. Þar þurfum við að hafa augun á boltanum varðandi það að þótt orkuinnviðirnir skipti máli að svo mörgu leyti þá koma ekki allir innviðir að fjárlögunum en þó það hvernig við byggjum upp þá innviði sem tryggja jafnræði landshluta. Varðandi þá innviði sem eru ekki tryggðir í núverandi t.d. flutnings- og dreifiveitukerfi sem við höfum, þar sem við höfum þá kannski tryggt fjármögnun fyrir notkuninni og þá innviði sem þarf, hafa leyfamálin kannski tafið frekar, en þar sem er verið að setja upp hleðslustöðvar og aðra innviði sem tryggja það að ef ferðaþjónustan fer í orkuskipti geti þau farið fram alls staðar, að íbúar alls staðar geti tekið þátt í orkuskiptunum. Svo verðum við náttúrlega að tryggja orkuöryggið og orkudreifingu upp á það þegar óveður geisa eða aðrar innlendar ógnir eru og svo skiptir þetta náttúrlega allt máli í heimsmyndinni líka. Síðan eru það fjarskiptainnviðirnir, þeir skipta gríðarlegu máli, og allir veituinnviðirnir sem er aðgangur að heitu og köldu vatni og annað slíkt.

Það eru líka fleiri innviðir sem eru að koma til núna sem tengjast oft nýsköpun og öðru slíku, að það verði nýsköpun hér, en líka matvælaöryggi og orkuöryggi sem tengist þjóðaröryggi. Það eru t.d. innviðir eins og í áburðarframleiðslu. Þetta er mikið efnahagsmál. Það eru innviðir sem þarf til sorpbrennslu eða í hringrásarhagkerfið, aðrir innviðir til endurvinnslu og slíkt. Það er líka stórt efnahagsmál að endurvinnslan og sorpmálin geti farið fram innan lands. Það er náttúrlega loftslagsmál fyrst og fremst en það getur líka verið efnahagsmál að geta gert þetta sjálf og þurfa ekki að kaupa þá þjónustu eða innviði til að flytja það út.

Þetta eru svolítið hlutirnir sem ég vil nefna og þegar maður skoðar þessi fjárlög og í hvað útgjöldin fara þá sýnist mér við ná vel utan um marga af þessum málaflokkum þó að víða mætti gera betur. Og svo eru aðrir hlutir sem við gætum nýtt fjármunina betur í, sem ég ræði betur á eftir.

Heilbrigðismálin. Það er mikil aukning aftur á fjármunum inn í heilbrigðismálin. Heilbrigðismálin hafa mjög breiða skírskotun þannig að það er víða verið að bæta í þar. Enn þá er þörf annars staðar en kannski er líka öðruvísi nýting fjármuna. Við þurfum að hafa öfluga sjúkrahúsþjónustu, við þurfum að hafa öflugan Landspítala og við þurfum líka hafa öflugar heilbrigðisstofnanir úti í héraði. Það er þetta sama, jafnræði milli landshluta, sem við þurfum að huga þarna. Við erum að eldast og það eru hjúkrunarmálin og þar er líka aukning. Þar þurfum við að vera mjög dugleg að skoða hvert einasta tækifæri sem við getum til þess að fjölga úrræðum og lausnum sem eru hagkvæmari og henta betur þörfum og vilja fólksins sem er að eldast og er að leita sér að öruggari búsetuúrræðum sem tengjast þeirra aðstæðum félagslega og heilbrigðislega séð. Þar þurfum við að vera mjög vakandi. Svo viðurkenni ég að það sem ég saknaði mikið í þessum fjárlögum og vonast til þess að sjá í fjármálaáætluninni eru nýjar leiðir í bráðaþjónustu utan spítala, sem munu verða til mikils hagræðis, auka þjónustu og öryggi gríðarlega, sem eru svokallaðar sérhæfðar sjúkraþyrlur sem við höfum áður rætt í fjárlaganefnd varðandi fjárlög og fjármálaáætlun og við höfum einnig rætt þetta mikið í velferðarnefnd. Sérhæfð sjúkraþyrla gerir það að verkum að sérhæfð bráðaþjónusta kemur mun fyrr á vettvang. Þannig er hægt að auka lífslíkur verulega. Það er hægt að draga úr afleiðingum veikinda eða slyss verulega og þá er um leið er verið að tryggja betra aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu eða staðsetningu og verið að draga úr álagi á aðra bráðainnviði og auka þjónustu og faglegheit til muna. Ég held að það þurfi að bregðast við auknu álagi. Búseta í dreifbýli er að aukast og fólki er að fjölga á landinu, ferðamannastraumurinn er líka aukast, virknin og útivistin og allt þetta, þannig að það er mun meira álag á þá innviði sem eru nú þegar í bráðaþjónustu utan spítalaþjónustunnar. Þeir eru miðaðir við íbúafjöldann á svæðinu sem er ekki lengur rétt talinn. Það þarf að hugsa út í heilbrigðismálin út frá vaxtarsvæðum, hvernig samsetning íbúanna er. Það er að fjölga umfram þetta 1% sem reiknilíkanið gerir ráð fyrir. Íbúafjölgunin er mun meiri á mörgum svæðum eins og á Suðurnesjum og víða á Suðurlandi og þeim svæðum þar sem ferðaþjónustan er að byggjast hvað hraðast upp er hlutfall innflytjenda mun hærra. Þá þarf að veita öðruvísi þjónustu og stundum aukna þjónusta, bara út af ólíkum tungumálum og mismunandi menningarheimum og öðru og það skiptir miklu máli að við náum að þjónusta það fólk vel. Þetta eru þessi svokölluðu reiknilíkön. Þetta á líka við í menntakerfinu og öðru. Við þurfum að hafa þetta allt í huga.

Áður en ég læt umfjöllun minni um heilbrigðismálin lokið vil ég segja að það skiptir gríðarlega miklu máli að við fáum betri yfirsýn yfir hvernig við nýtum fjármuni núna, hvernig við forgangsröðum innan heilbrigðiskerfis, fáum greiningar að framtíðarþörfinni, hvar við getum náð betri árangri og nýtt peningana betur. Það kom í ljós núna í fjárlagaumræðunni að þessar upplýsingar eru svolítið á víð og dreif innan kerfisins. Við erum með nokkra stóra pósta en mér finnst þeir einhvern veginn ekki tala nógu vel saman, kaupandi þjónustunnar, þeir sem veita þjónustuna, þeir sem hafa eftirlit með þjónustunni og svo þeir sem eiga að hafa yfirsýnina. Til að nefna eitthvað erum við að sjálfsögðu að tala um Sjúkratryggingar, landlæknisembættið, ráðuneytið sjálft, Landspítalann, sem er kannski hvað stærstur í þessu, heilsugæsluna og svo einstakar heilbrigðisstofnanir. Þetta er eitthvað sem ég held að sé mjög mikilvægt til þess að við náum að veita sem hagkvæmustu og bestu þjónustuna í heilbrigðismálum og sinna hlutverki okkar þar.

Næst vil ég koma inn á þá grunnþjónustu sem lögreglan er. Það hefur farið mikil vinna og undirbúningur í að skoða hvernig hægt sé að nýta mannafla og þekkingu og þá innviði sem lögreglan hefur sem best og hvar áskoranirnar eru. Áskorunum í löggæslu hefur fjölgað jafnt og þétt undanfarin ár og það alveg gríðarlega mikið.

Einhvers konar náttúruvá er orðin mun tíðari en fyrir nokkrum árum þannig að nú eru flest löggæsluumdæmi landsins með einhvers konar viðbrögð við slíku, hvort sem það er óveður, skriðuföll, jarðhræringar, heimsfaraldur o.fl.. Það er aukinn ferðamannastraumur, sá straumur er að fara af stað aftur. Það er líka fjölbreyttari samsetning íbúa og gestir langt umfram íbúatölur sem eiga við þar. Það eru nýjar áskoranir eins og varðandi tæknivæðinguna. Tæknivæðingin fækkar landamærunum, minnkar heiminn, þannig að netöryggismálin koma sterkt þar inn. Það sem gerist úti í hinum stóra heimi er komið miklu fyrr hingað til lands, hefur fyrr áhrif hér en áður, og svo náttúrlega skipulögð glæpastarfsemi, en það hefur komið fram í skýrslum greiningardeildar ríkislögreglustjóra frá 2017 að hér sé aukin ógn. Þær eru því margar áskoranirnar. Á sama tíma er ákveðnar kröfur uppi og rannsókn á venjulegu lögreglumáli í dag er orðin flóknari út af aukinni tækni til að mynda. Það er líka miklu meiri krafa hjá bæði ákæruvaldinu og dómstólunum um gagnaöflun og vinnslu og annað slíkt. Það er margt svoleiðis og þetta er allt orðið tímafrekara og kallar á meiri mannafla. Svo höfum við náttúrlega verið í gríðarlega mikilvægu átaki varðandi kynferðisbrot við að auka traustið og vinnuna í slíkum málum svo þolendur kæri málin frekar. Við höfum reynt að stytta málstímann og það voru settir í síðustu fjárlögum auknir fjármunir í það og var ánægjulegt að heyra fyrir hv. fjárlaganefnd að þeir fjármunir eru strax farnir að skila sér í auknum málshraða og betri löggæslu sem hefur vonandi forvarnagildi og eykur traust þannig að fleiri sjái sér fært að kæra sé á þeim brotið. Ég hef trú á því að með þeirri verulegu aukningu sem kemur til lögreglunnar í þessum fjárlagatillögum fyrir árið 2023 verði hægt að byggja lögregluna upp á fjölbreyttan hátt til að takast á við þessa auknu áskoranir.

Ég verð líka að koma inn á það að allt málefnasviðið í almennu réttaröryggi er byggt upp á stofnunum eins og Fangelsismálastofnun, lögreglunni, dómstólum, þar sem launahlutfall er alveg 75–85%. Hagræðingarkrafa á svona almannaþjónustu sem er með auknar áskoranir, aukin verkefni og er með svona hátt launahlutfall getur ekki gengið upp. Hagræðingarkrafa með svona háu launahlutfalli þýðir alltaf fækkun á fólki. Það eru engir stórir sjóðir eða útdeilingarsjóðir sem hægt er að ganga í eins og í mörgum öðrum málaflokkum. Það eru augljóslega, eins og ég rakti áðan, auknar áskoranir og því tel ég mjög mikilvægt að hagræðingarkrafan á þetta málefnasvið í heild sinni sé endurskoðuð í næstu fjármálaáætlun. Það er þá í takt líka við skilaboð fjárlaganefndar fyrir ári síðan þegar við settum sérfjármögnun til að draga úr hagræðingarkröfu á lögregluna og erum að að gera aftur núna, setja sérfjármuni til að draga úr hagræðingarkröfu á lögregluna. Þetta er eitthvað sem við þurfum að taka til alvarlegrar umræðu við vinnslu næstu fjármálaáætlunar. Þetta á að sjálfsögðu við fangelsin líka. Það er ánægjulegt að við séum að mæta vanda fangelsanna núna á grundvelli ítarlegrar greiningar frá fangelsismálayfirvöldum og dómsmálaráðuneytinu og við þurfum að halda áfram að fylgjast með fangelsismálunum. Ef lögreglan er að fara að breyta skipulagi sínu og eflast með auknum fjármunum — við erum með áherslu á skipulagða glæpastarfsemi og ég nefndi áðan áhersluna á að hraða rannsóknum og auka í varðandi kynferðisbrotin o.fl. — þá þarf náttúrlega fullnustukerfið að fylgja með. Því tel ég mikilvægt að við fylgjum með því.

Ég ætla að koma næst inn á félagsmálin. Það er mjög ánægjulegt að við séum að hækka frítekjumark hjá þeim sem eru á örorkulífeyrisbótum þannig að þeir geti farið með auknum mætti út á vinnumarkaðinn, fikrað sig út á vinnumarkaðnum, séð hvernig þeir standa og hvernig það gengur miðað við þá örorku sem þeir búa við. Þetta er hvetjandi þáttur sem ég fagna alveg gríðarlega og þróun sem við eigum að halda áfram, að finna leiðir. Það hefur lengi verið rætt um endurskoðun á þessu kerfi í heild sinni sem miðar einmitt að því að hjálpa fólki til sjálfshjálpar. Það er held ég það sem vilji allra stendur til og þetta er fínt og gott skref en enn er hægt að gera betur og við þurfum að halda áfram, það er alveg gríðarlega mikilvægt.

Annað sem er mjög mikilvægt og við þurfum að ræða eru menntamálin, sem við erum kannski ekki mikið að fjalla um í þessum fjárlögum en þurfum að hafa hugann við. Skólarnir fengu töluverða innspýtingu í gegnum Covid sem stendur að einhverju leyti enn. Það er hluti af útgjöldum þessara fjárlaga að sú innspýting sem við settum inn í gegnum Covid helst enn þá og það á við í bæði háskólum og framhaldsskólum, af því að það var aukin ásókn í skólana og hún hefur ekki trappast jafn hratt til baka og hún kom inn. En þá skiptir líka miklu máli að við séum að stýra fjármunum og beina áherslum okkar í menntakerfinu að því sem er þörf á að mennta fólk í og líka þangað sem eftirspurnin er, sérstaklega í iðnnáminu. Við þurfum að íhuga það svolítið hvort við þurfum á einhverjum tímapunkti að hafa meiri áhrif á það hvernig skólarnir velja inn og setja meiri fókus á iðnnám. Það er með ólíkindum að verið sé að segja nei við einhverja sem sækja um iðnnám af því að við sjáum að það er alltaf umframeftirspurn þar, en það vantar samt starfsfólk í svo mörgum greinum atvinnulífsins, menntað starfsfólk. Við þurfum að sjá hvort það sé einhver leið í gegnum fjármunina til að hafa meiri áhrif á þetta og ég held að það sé mikilvægt í efnahagslegu tilliti. Þetta skiptir miklu máli upp á að menntakerfið mæti áskorunum atvinnulífsins en líka að við hugum að því að það sé fjölbreytt námsframboð þannig að við sjáum síður brottfall í framhaldsskólakerfinu. Það má líka ekki bara vera markmiðið að sem flestir fari í háskóla. Ég heyri miklar áhyggjur af því hve fáir drengir skila sér alla leið inn í háskólann en svo framarlega sem ungu drengirnir okkar skila sér í iðnnám, fara út á vinnumarkaðinn með iðnnám á bakinu, þá hef ég ekki áhyggjur af því að þeir komi ekki inn í háskólana. En ef ástæðan fyrir því að þeir fara ekki í háskóla er að þeir klára ekki framhaldsskóla eða neitt annað nám og brottfallið er algjört, þá hef ég miklar áhyggjur. Ég held að þetta sé þáttur sem við þurfum að hafa hugfastan.

Þetta eru þeir þættir sem skipta miklu máli. En svo er annað sem við höfum verið að fjárfesta mjög mikið í og það er efling skapandi greina, aukin nýsköpun innan núverandi fyrirtækja og í nýjum fyrirtækjum sem hjálpa okkur að skapa fjölbreyttari og verðmætari störf, flytja út íslenskt hugvit og fá til okkar öflugt fólk til að starfa í samfélagi okkar og finna lausnir og koma með lausnir. Þetta á við í heilbrigðismálum, í tölvu- og tæknigeiranum og svo hefur sjávarútvegurinn dregið þennan nýsköpunarvagn og útflutning á íslensku hugviti og þekkingu. Síðan megum við náttúrlega ekki gleyma að við þurfum að standa okkur vel í nýsköpun og þróun í grænum lausnum, í orkuskiptunum og orkumálunum og hringrásarhagkerfinu og því öllu. Þar höfum við góða sögu að segja en við þurfum að halda vel á spöðunum af því að nú er allur heimurinn á þessari vegferð, þannig að forskot okkar getur tapast fljótt niður ef við fylgjum ekki hratt á eftir. Þarna eru gríðarleg tækifæri fyrir Ísland í efnahagslegu tilliti og ef okkur tekst vel í þessum greinum erum við bara að byggja fleiri stoðir undir velferðarkerfi okkar. Um það snýst þetta allt saman. Ef við erum með öflugt menntakerfi, öflugar grunnstoðir, góða auðlindanýtingu og nýtum okkar íslenska hugvit til útflutnings þá höfum við miklu öflugra velferðarkerfi og getum byggt upp innviði og tryggt hér öruggt og gott velferðarsamfélag. Það skiptir alveg gríðarlega miklu máli.

Talandi um útflutning og ferðaþjónustu og efnahagsmál þá er náttúrlega ekki hægt að fjalla um fjárlögin án þess að minnast á þá óvissu sem er í heimshagkerfinu. Það er margt sem veldur því en það er verðbólga, minni hagvöxtur og orkukrísa og maður verður að minnast á að það er náttúrlega stríð í gangi sem skapar þessa óvissu og sem kemur í kjölfarið á heimsfaraldri. Við vitum ekkert hvaða afleiðingar röskun á viðskiptamörkuðum okkar hefur. Því verðum við að huga að því að við þurfum að treysta á okkar eigin framleiðslu og vera samt með mjög ábyrg fjármál og stöðug. Við þurfum að hafa borð fyrir báru í þessu öllu saman.

Núna er ég búin að fara yfir þá málaflokka sem við setjum mesta fjármuni í. Ég er bara nokkuð sáttur þótt útgjöldin séu mikil, af því að við erum enn þá með ábyrg fjárlög og það skiptir máli. En við getum gert betur og við eigum alltaf að vera að hugsa um hvernig við förum sem best með fjármunina. Ég held að við getum hagrætt á mörgum stöðum. Ég held við getum nýtt fjármunina mun betur. Þar vil ég bara senda almenna hvatningu til allra ráðherra ríkisstjórnarinnar um að fara betur eftir hinum rammasettu fjárlögum, að þeir skoði heildarrammafjárveitingu hvers ráðuneytis. Í hvað erum við að nota fjárlagaramma hvers ráðuneytis á hverju ári? Er ekki eitthvað af verkefnum þar sem eru orðin úrelt eða eru ekki jafn nauðsynleg og önnur ný og mikilvægari verkefni sem við viljum taka inn? Að það þurfi ekki alltaf að koma til fjármálaráðherrans eða hingað inn í þingið og óska eftir auknum fjármunum út af einhverri nýrri áskorun, nýju verkefni. Getur verið að það sé eitthvert verkefni í ráðuneytinu sem er ágætisverkefni en það er bara eitthvað annað mikilvægara svo hitt fer út? Þannig eru rammasett fjárlög hugsuð. Mér finnst umræðan vera allt of mikið um það að ef það kemur eitthvert nýtt verkefni þarf að fá meiri pening og ef við förum fram úr þá er alltaf bara skoðað hvernig við getum bætt og lagað þessa einu framúrkeyrslu en ekki hvernig heildarramminn er saman settur og hvernig fjármunirnir innan hans eru nýttir. Það var hugsunin og þannig var verið að reyna að búa til hvata til að fara betur með peningana, þannig að ef ráðuneytin náðu að skera einhvers staðar niður eða hagræða eða finna hagkvæmari lausn þá höfðu þau meira svigrúm í ný verkefni og nýjar áskoranir. Svo er náttúrlega engin synd að skila peningunum bara aftur í ríkissjóð. Okkur ber ekki skylda til að nýta skattfé almennings bara af því bara, það er algerlega á hreinu. Í þessu þurfum við alltaf að vera frjó og við þurfum að hafa þann hvata að hafa góða yfirsýn og hafa góðar greiningar og mikið gagnsæi í því hvert peningarnir fara. Við eigum alltaf að vera að spyrja okkur: Er til einhver betri lausn sem veitir skattgreiðendunum betri þjónustu og sem er um leið hagkvæmari? Það skiptir svo miklu máli, eins og ég fór yfir áðan, og það getum við skoðað á mörgum stöðum í heilbrigðiskerfinu.

Ég er að vona að þær 750 milljónir sem við erum að setja núna í heilbrigðiskerfið til að takast á við biðlistana í liðskiptaaðgerðum sem dæmi og efnaskiptaaðgerðum o.fl. verði til þess að það verði hægt að nýta einkaframtakið, nýta fleiri hendur til að fara í fleiri aðgerðir hér heima á Íslandi þannig að við séum ekki að sóa skattfé almennings, peningunum okkar, eigin peningum sem við vinnum okkur inn, borgum í skatt til ríkisins, að ekki sé verið sóa þeim í að versla af einkaframtakinu aðgerðir í öðrum löndum sem fela í sér miklu meiri óþægindi fyrir sjúklinginn, að þurfa að bíða í ákveðinn tíma eftir að fá heimild til að fara í aðgerðina erlendis, fljúga út og gista þar og fara í aðgerðina í öðru landi. Það eru ekki allir sem treysta sér í það þannig að þarna erum við farin að bjóða upp á mismunun og kannski hægt að gera tvær til þrjár aðgerðir hér heima í staðinn fyrir þessa einu í útlöndum. Þetta er eitt skýrasta dæmið um hvernig er hægt að nýta fjármuni betur, veita fleirum þjónustu fyrr og betur. Maður verður hálfpartinn svekktur og reiður að þurfa að horfa upp á þetta. En ég hef trú á því og ætla að vona það og vil hvetja heilbrigðisyfirvöld til þess hér í þessum ræðustól að nýta þessar 750 milljónir eins vel og hægt er. Ef vel tekst til er hægt að nýta þá fjármuni sem sparast við að færri fari til útlanda í aðgerð til þess að veita enn fleirum þjónustu á fljótari og skilvirkari hátt hér heima þannig að allir græða, ef svo má segja. Auðvitað er ekki bara um að ræða aukinn kostnað við að senda fólk erlendis. Það er líka fólginn kostnaður í vinnutapi fólks. Hann er líka að finna í auknum komum fólks annars staðar í heilbrigðiskerfinu á meðan það fær ekki lausn sinna mála, og í auknum lyfjakostnaði og afleiddum kvillum. Þetta skiptir gríðarlegu máli. En það er líka annað alvarlegt í þessu. Við viljum að allir hafi greiðan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og stöðu. Það skiptir öllu máli. En meðan kerfið er eins og það er í dag þá getur fólk keypt sig fram fyrir röðina. Það kallast tvöfalt heilbrigðiskerfi sem ég veit ekki til að við höfum viljað hafa hér. Og hverjir eru það sem kaupa sig fram fyrir röðina? Það eru ekki endilega þeir sem hafa efni á því. Það er miklu frekar þeir sem hafa ekki efni á því að fá ekki bót meina sinna, að fá ekki hnéð eða mjöðmina lagaða af því að þá getur fólk ekki mætt í vinnu og þá tapar það tekjum og nær ekki endum saman. Þau verða bara að fjármagna aðgerðirnar sjálf til að komast sem fyrst aftur í eðlilegra rútínu. Svo eru náttúrlega aðrir sem sársaukans vegna geta ekki beðið lengur og borga þá frekar úr eigin vasa ef þeir treysta sér ekki til að fara í aðgerð erlendis. Þetta er bara eitt af þessum stóru málum sem skipta gríðarlega miklu máli.

Við þurfum líka að skoða þetta varðandi hjúkrunarheimilismálin. Er til einhver millileið þannig að fólk sem þarf vissulega á þjónustunni að halda geti haft meira um búsetu sína að segja og jafnvel tekið þátt í greiðslu fyrir eigin búsetu og þá haft meira val um hver hún er en fær samt sem áður félagsþjónustu og heilbrigðisþjónustu frá hinu opinbera? Það hefur fjölgað mikið í þessum hópi og ef við ætlum bara að vera að fjalla hér um hvað við ætlum að setja mikla peninga í nýbyggingu á hjúkrunarheimilum erum við á röngum stað. Þá erum við að horfa á það hvernig ætlum að forgangsraða peningunum í steypu en ekki í þjónustu við fólk sem þarf á öruggu búsetuúrræði og heilbrigðisþjónustu að halda.

Svona er hægt að halda lengi áfram, hvernig sé hægt að nýta fjármunina betur. Það er allra hagur að það sé gert og því betur sem okkur tekst að fara með fjármunina, þeim mun ábyrgari og betri fjárlög getum við sýnt. Þá getum við dregið úr álögum á fólk. Þá getum við veitt betri þjónustu og, þá enda ég á því sem ég byrjaði á, þá getum við kannski dregið úr álögum, náð verðbólgunni niður, haft stöðugleika í efnahagsmálunum, verið með ábyrga og skýra efnahagsstjórn. Það er það allra mikilvægasta fyrir tekjulægsta hópinn sem er hvað viðkvæmastur fyrir þessum breytingum og finnur fyrstur allra fyrir hærri verðbólgu, hærra vaxtastigi. Við þurfum að gera þetta en við verðum líka að muna að fljótlegasta leiðin til að auka tekjurnar, til að byggja upp innviðina okkar og velferðarkerfið sem við viljum hafa sem öflugast er með ábyrgri og góðri auðlindanýtingu og öflugu atvinnulífi. Það er grundvöllurinn að þessu öllu saman og ég hef trú á því að þessi fjárlög styðji öll þau markmið sem ég fór hér yfir og hlakka til að sjá árangur þeirra á næsta ári.