Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[20:37]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki oft sem ég upplifi það, eða a.m.k. ekki jafn skýrt, við skulum bara orða það þannig, ég ætla ekki að útiloka það, en það er ekki oft sem ég er klárlega sammála Samtökum atvinnulífsins í því sem þau segja um fjárlög ríkisins. En í þessu tilfelli segja þau, með leyfi forseta, í umsögn sinni við fjárlagafrumvarpið að við það verði vart unað að 75 milljarða gat geti myndast á tekjuáætlun ríkissjóðs með tilheyrandi áhrifum á sjóðstreymi og skuldastöðu. Heildarskuldir myndu við það aukast um tæplega 6% og verða 1.350 milljarðar kr. í stað 1.275 milljarða kr., eins og nú er gert ráð fyrir. Þetta er fjárhæð sem er hærri en fjárfestingarframlög ríkisins til uppbyggingar Landspítalans og vegakerfisins árið 2022 og 2023, sem eru 73 milljarðar. Er þetta engin áhætta, hv. þingmaður, að skilja þetta bara eftir í algjörri óvissu? Ég tók eftir því að hv. þingmanni varð tíðrætt um óvissuna. Er þetta ekki risavaxin áhætta sem er verið að taka hérna?