Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[20:49]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nú byrja á að segja að ég stend við að þetta séu ábyrg fjárlög. En væri hægt að hafa þau enn ábyrgari? Já, að sjálfsögðu. Myndi ég vilja það? Já, að sjálfsögðu. En við erum með vissar áskoranir. Það er margt sem við þurfum að taka tillit til þannig að ég held að við séum, miðað við þær áskoranir og þær aðstæður sem eru, að ná mjög góðum árangri hér. En eins og ræða mín hér snerist nú mikið um þá er auðvitað enn hægt að gera betur. Við erum með töluverðar ábendingar um það í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar. Ég fagna því að seðlabankastjóri veiti okkur aðhald. Það er hans hlutverk. Hann sagði að auðvitað hefði hann, eins og ég, viljað sjá okkur ná enn betri árangri. Við viljum það og það er vel. En hann sagði að það væri ekki ástæða til að hækka stýrivexti út af þessu, þannig að ég geng sáttur frá borði hér.