Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[21:38]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni fyrir andsvarið og spurningu hans. Hvort maður á að kalla þetta þreytandi? Nei, ég myndi ekki segja þreytandi en þetta er sorglegt. Þetta er eiginlega, hvað á maður segja, sorglegra en tárum taki að maður skuli þurfa aftur og aftur, ekki bara gagnvart hæstv. forsætisráðherra heldur líka fjármálaráðherra, eins og ég kom inn á í ræðu minni — þegar þau móðgast við það þegar maður segir að ekkert hafi verið gert. Það er hægt að túlka „ekkert gert“ á mismunandi hátt vegna þess að ef þú gerir ekki nóg til þess að viðkomandi eigi fyrir mat og þurfi jafnvel að skera niður lyf og annað, hvernig er þá hægt að flokka það öðruvísi en svo að ekkert hafi verið gert? Vegna þess að á meðan einhver þarf að skera niður þá er ekki verið að gera mikið fyrir hann. Þá er greinilega ekki verið að ná upp í það sem þarf til þess a.m.k. að vera á sama stað. Það er hægt að túlka það eins og hæstv. fjármálaráðherra gerir alltaf, að maður eigi að fara inn á Tekjutíund og þar sé hægt að sjá hvert meðaltalið er, hvað allir hafa það gott. En meðaltal gagnast ekki neinum nema þeim sem eru í vörn og eru að reyna að villa um fyrir fólki vegna þess að það lifir enginn á meðaltali. Það kaupir enginn neitt fyrir meðaltal og ég hef ekki séð neinn geta hvorki soðið né borðað meðaltalið og ekki geturðu einu sinni keypt lyf. Þú þarft pening, þú þarft þá fjármuni og þú þarft meiri fjármuni en þú hafðir til að geta keypt hlutinn áður en allt hækkar.