Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[21:45]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf):

Virðulegi forseti. Hv. þingheimur. Kæra þjóð. Hér er ég. Það sem ég ætla að tala um og tengist fjárlagafrumvarpinu er SÁÁ. Í vaxandi fíkniefnavanda er sterkt ákall úti í samfélaginu eftir aukinni bráðaþjónustu SÁÁ og að stjórnvöld standi þétt við bakið á samtökunum. Biðlistarnir eru allt of langir og samtökin skortir 300 milljónir til að geta annað skilgreindu hlutverki sínu. Inga Sæland lagði fram breytingartillögu við frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2022 þess efnis að ríkið leggi SÁÁ til þessar 300 milljónir sem svo brýn þörf er á. Tillaga hennar var felld. Þá hefur Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins, lagt fram breytingartillögu að sömu fjárhæð við fjárlögin fyrir næsta ár. En nú ætla ég að tala um það hvað SÁÁ er. Þannig er að um miðjan áttunda áratuginn eða rétt fyrir hann miðjan fóru menn að taka eftir því að svokallaðir rónar, sem höfðu verið tíðir gestir á hádegisbörum bæjarins og voru taldir óhæfir og vonlausir, fóru allt í einu að labba bísperrtir og bláedrú um borgina. Þetta voru menn sem höfðu kannski stundað viðskipti og gert það gott en voru eignlega búnir að sólunda öllu og það var allt komið í klessu. Þetta spurðist út og menn fóru að tékka á því hvað væri að gerast. Það sem kom í ljós var þetta: Viðkomandi menn höfðu farið til Ameríku. Þeir höfðu farið á stað sem var kallaður Freeport. Þaðan höfðu þeir farið á annan stað sem ég hét Villa Veritas. Freeport var staður þar sem menn urðu edrú, tíu daga afvötnun svokölluð, og í Villa Veritas voru menn í 28 daga prógrammi sem byggðist aðallega á 12 spora kerfi. Síðan kemur einn af þessum mönnum upp á yfirborðið í Reykjavík, mjög áberandi, Hilmar Helgason, og hann fer að tala um og dásama Freeport og þessa starfsemi sem þar var í gangi. Það var fyrir hans atbeina að SÁÁ var stofnað í kringum 1977.

SÁÁ byrjaði með því að vera með afvötnunarstöðu í Reykjadal, fengu síðan aðstöðu í Silungapolli og eftir meðferðarstöðin var á Sogni í Ölfusi. Ég er einn af þeim sem er svo heppin að hafa farið í afvötnun og meðferð hjá SÁÁ árið 1980. Ég fór á Silungapoll og þaðan á Sogn. Ég lærði heilmikið um sjúkdóminn. Sumir kalla þetta fíkniefnavanda, aðrir kalla þetta vímuefnavanda, alkóhólisma. Þetta er sami sjúkdómurinn raunverulega þegar upp er staðið. En þetta er bráðhættulegur, lævís, lúmskur og ófyrirleitinn sjúkdómur sem leitar allra ráða til að ná tökum á viðkomandi einstaklingum og ekki bara einstaklingnum heldur líka hans nánasta umhverfi, fjölskyldu, vinum, vinnufélögum. Vitið þið það að alkóhólismi, ef ég má kalla þetta það, ég veit að þetta er vímuefnavandi eða fíkniefnavandi en ég skal kalla það alkóhólisma bara til að hafa þetta einfalt, er þriðji stærsti dauðsvaldur á eftir hjartasjúkdómum og krabbameini. Vandinn er bara sá að þeir sem eru með þennan sjúkdóm hafa tilhneigingu til að segja: Nei, ég er ekki veikur. Og þeir hafa tilhneigingu til þess að valda öðrum skaða. Ef maður greinist með krabbamein eða hjartasjúkdóm er öll fjölskyldan undirlögð af sorg og umhyggju og viðkomandi fær alla þá hjálp sem hann getur mögulega fengið. En sé maður illa farinn af alkóhólisma er allt í klessu í kringum mann, gjörsamlega. Það er munurinn á þessu. Alkóhólismi er enginn venjulegur sjúkdómur. Hann hefur afdrifarík áhrif, bæði á geðræna og líkamlega heilsu sjúklingsins og allra aðstandenda hans. Þannig getur óhófleg neysla áfengis og annarra vímuefna gjörbreytt persónuleika viðkomandi einstaklings til hins verra og alið af sér slæma þráhyggju, fíkn, stjórnleysi og afneitun. Ef sjúkdómurinn er ekki meðhöndlaður rétt leiðir hann oft til geðveiki eða dauða — pælið í því, geðveiki eða dauða. Viðkomandi er fárveikur og hann neitar því að vera veikur. Hann vill frekar deyja eða verða geðveikur. Þetta er skelfilegt. Sjúklingurinn einangrast félagslega, hann missir atvinnuna, fjármálin fara í rúst, lífsgleðin fjarar út, myrkrið tekur við og í sumum tilvikum er neyðarúrræðið sjálfsvíg. Það eru ótaldar andvökunætur, angist og vonleysi aðstandenda sem ekkert fá að gert.

Ekki alls fyrir löngu kynntist ég manni sem hafði gert það mjög gott í hinu veraldlega vafstri, orðið það sem kallað er ríkur, milljarðamæringur. Hann lá í rúminu í nokkra mánuði ósjálfbjarga og það var borið í hann vínið og hann vissi ekkert í sinn haus og hann gerði allar sínar þarfir rúmið. Þetta er maður sem var mjög virkur þjóðfélagsþegn á sínum tíma. Svona fer alkóhólisminn með fólk.

Það vill svo til að ég fer iðulega á Litla-Hraun og Hólmsheiði og þar hitti ég náttúrlega menn sem eru innilokaðir fangar og ég hitti líka gjarnan menn sem hafa verið fangar og þeim kemur öllum saman um þetta, það er eins og rauður þráður, nálægt 80% af öllum þeim sem sitja inni eru þar vegna þess að þeir eru haldnir vímuefnavanda af einhverju tagi. Svona er þessi sjúkdómur slæmur. Þess vegna er það sem ég segi við ykkur, kæru félagar hér á þingi sem hafið áhrif á fjárlögin: Við vonum að ríkisstjórnin sjái að sér og verði við ákalli þingmanna Flokks fólksins um þessa 300 millj. kr. lífsbjörg. Allt of margir látast hérlendis úr þessum skæða sjúkdómi á hverju ári og það er sár eftirsjá að þeim mannauði. Hér er einfaldlega allt of mikið í húfi til að þetta megi gerast.