Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[21:52]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. 9. þm. Reykv. n. fyrir ræðuna og fyrir að koma inn á mikilvæga punkta hvað varðar starfsemi SÁÁ og enn þá mikilvægari punkta varðandi þann skæða sjúkdóm sem fíknisjúkdómurinn er. Nú hefur frumvarp legið fyrir Alþingi fjórum sinnum, held ég, frumvarp hv. þm. Halldóru Mogensen um afglæpavæðingu neysluskammta vímuefna, sem snýr einmitt að því að veita fólki sem er haldið þessum fíknisjúkdómi — og fíknisjúkdómur er fíknisjúkdómur hvort sem fíknin er í áfengi eða önnur vímuefni. En, já, þetta frumvarp hefur verið fellt í þingsal einu sinni og oft dáið í nefnd og því vil ég spyrja hv. þm. Tómas A. Tómasson hvort hann styðji þetta frumvarp og þessa hugmyndafræði sem er í kringum afglæpavæðingu vörslu neysluskammta. Miðað við hvernig hv. þingmaður talar sýnist mér við vera á sömu línu hvað varðar að veita fólki aðstoð með þennan sjúkleika, eða með þennan sjúkdóm, og að fólk eigi heima í heilbrigðiskerfinu og það eigi að fá félagslega aðstoð, sálfræðilega aðstoð en ekki refsingu innan refsivörslukerfisins. Þetta tengist fjárlögunum beint út af því að það er bara slæm ráðstöfun á fjármagni að láta lögregluna elta uppi fólk sem er með gramm eða tvö af grasi á sér í stað þess að nýta þetta fjármagn í að berjast við skipulagða glæpastarfsemi og efla félagslegu kerfin til að koma í veg fyrir að fólk leiðist út í glæpi til að byrja með. Það er alvöruforvörnin, að sjá til þess að þetta eigi sér ekki stað til að byrja með. En ég sný mér aftur að spurningunni til hv. þingmanns um hvort hann styðji þessa hugmyndafræði og þetta frumvarp.