Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[22:08]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér seinni ræðu mína í umræðu um fjárlög. Mig langar að byrja ræðu mína á því að minnast á það að hv. formaður fjárlaganefndar, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, var í morgun í Bítinu á Bylgjunni og var spurð um breytingartillögu Samfylkingarinnar við fjárlögin. Í svari henni fólst að þetta væru eiginlega einu breytingartillögurnar frá stjórnarandstöðunni. Það væri gott að Samfylkingin væri með breytingartillögur svo að þjóðin sæi fyrir hvað þau stæðu. Ég er ótrúlega hissa á ummælum hv. formanns fjárlaganefndar. Málið er að Píratar, stjórnarandstöðuflokkur, eru með breytingartillögur, lögðu þær fram í gær í skriflegu formi og hafa fjallað um þær í ræðum sínum, m.a. talsmaður Pírata í fjárlaganefnd og talsmaður í þessari umræðu, og fært rök fyrir þeim. Í öðru lagi er Flokkur fólksins líka með breytingartillögur. Ég gerði grein fyrir þeim í ræðu minni í gær og fór yfir þær og færði rök fyrir þeim. Ég tel rétt að gera það aftur hér, svo það liggi algerlega fyrir í þessum þingsal að við erum með breytingartillögur og og hvers eðlis þær eru.

Þetta eru átta breytingartillögur og ná til málaflokka sem eru eftirfarandi: Málefnasvið 18, menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál; málefnasvið 19, fjölmiðlun. Ég tek það fram að málefnasviðin eru öll í fjárlögunum, það eru hátt í 30 málefnasvið sem þar eru undir. Við erum með breytingartillögu á málefnasviði 25, um hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu. Við erum með breytingartillögur á málefnasviði 27, um örorku og málefni fatlaðs fólks, sem lúta að bótum samkvæmt lögum um almannatryggingar, örorkulífeyri, og bótum samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Flokkur fólksins er með breytingartillögu á málefnasviði 28, um bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar, lífeyri aldraðra, og bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, öldrun. Að lokum erum við með breytingartillögu sem lýtur að málefnasviði 29, um fjölskyldumál, annan stuðning við fjölskyldur og börn.

Þessar breytingartillögur fela í sér í fyrsta lagi að felldar verði brott heimildir til sölu á eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Lagt er til að fella brott heimildir til sölu á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka og Landsbanka og einnig er lagt til að fella brott heimild til að selja hlut ríkisins í Sparisjóði Austurlands.

Í öðru lagi er lagt til að hækka bankaskattinn aftur í fyrra horf. Við það myndu tekjur ríkissjóðs hækka um 9 milljarða kr. á næsta ári.

Í þriðja lagi er lagt til að veiðileyfagjald verði hækkað um 7 milljarða kr. til að tryggja þjóðinni sanngjarnt endurgjald fyrir afnot af sjávarauðlindinni.

Í fjórða lagi er lagt til, á sviði innlendrar kvikmyndagerðar og RÚV, að framlag til Ríkisútvarpsins, RÚV, lækki um 290 millj. kr. Þess í stað hækki framlög til Kvikmyndasjóðs um sömu fjárhæð. Vegna hækkunar útvarpsgjalds vegna verðlagsbreytinga um 7,7% milli ára mun framlag ríkisins til RÚV hækka um 290 millj. kr. milli ára. Ég vil taka fram að hækkun á framlögum til RÚV er mjög sérstaks eðlis. Hún miðast við fólksfjölda og líka verðbólgu og þetta byggir á lögum um Ríkisútvarpið og á sér sögulegar forsendur í því þegar afnotagjaldið var afnumið. Ég tel ótrúlegt að við séum enn þá föst í því að vera með lög sem byggja á því að framlög til ríkisstofnunar eins og Ríkisútvarpsins byggist á því hversu margir eru búsettir á Íslandi. Það hefur ekkert með reksturinn að gera. Það kostar jafn mikið að framleiða sjónvarpsþátt hvort sem það eru 100.000 manns eða 5.000 manns fleiri sem horfa eða hversu margir eru að horfa og hversu margir búa á landinu. Framlög til innlendrar kvikmyndagerðar eru á sama tíma lækkuð í fjárlagafrumvarpinu um rúmlega 400 millj. kr. Það er með öllu óboðlegt að Ríkisútvarpið skuli fá sjálfkrafa hækkun á ríkisframlögum þegar verðbólga er mikil eða þegar fólki í landinu fjölgar. Stuðningur við innlenda kvikmyndagerð er mikilvægur til eflingar á þessari mikilvægu listgrein og því leggjum við til að sú hækkun sem ráðgert er að fari til RÚV renni í staðinn til Kvikmyndasjóðs Íslands.

Í fimmta lagi leggur Flokkur Fólksins til að fjárhæðir almannatrygginga hækki um 10% milli ára til að tryggja að kjör öryrkja og eldri borgara haldi í við launaþróun og verðlag. Kjaragliðnun almannatrygginga mælist í tugum prósenta og nú er kominn tími til að stíga skref í rétta átt. Einnig er lagt til framlag upp á 1 milljarð kr. til að draga úr skerðingu almannatrygginga frá fyrstu krónu.

Í sjötta lagi leggjum við í Flokki fólksins til að 300 millj. kr. hækkun verði á framlögum til SÁÁ. Hv. þm. Tómas A. Tómasson kom svo vel inn á það í ræðu sinni hér áðan hversu alvarlegir fíknisjúkdómar eru og áfengissýki. Hér er um gríðarlega mikilvægt framlag að ræða. Ísland, sem er eitt ríkasta land í heimi, verður að veita fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu á þessu sviði þar sem við getum verið fremst í flokki. Ég veit ekki hversu oft það stendur í stjórnarsáttmálanum að við ætlum að vera fremst í heimi. Bara á bls. 9 varðandi loftslagsmálin er sagt fjórum sinnum að við ætlum að verða fremst í heimi, fremst á alþjóðlega vísu, fremst í heimi og fyrst til að verða kolefnislaus í heiminum. Við eigum að vera fremst í heimi varðandi fíknisjúkdóma, við eigum að reka eitt besta fíknisjúkrahús í heimi. Ég veit að það er ekki ríkið sem gerir það heldur áhugasamtök í baráttunni gegn fíknivandanum, SÁÁ, en það er samt skylda ríkisins að reka svoleiðis spítala. Þess vegna verða framlögin að vera nægjanleg til þess að við getum rekið spítalann sómasamlega.

Í sjöunda lagi leggur Flokkur fólksins til 80 millj. kr. framlag til Sjónstöðvarinnar, þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, svo að fjármagna megi að fullu innflutning og þjálfun leiðsöguhunda og koma í veg fyrir að kostnaður falli á notendur vegna ferða ásamt leiðsöguhundi til og frá landi. Auk þess mun fjármagnið nýtast til að greiða fyrir nýja tegund hjálpartækja, svokallaðra stækkunartækja. Þau munu nýtast 150 einstaklingum.

Að lokum, í áttunda lagi, er lagt til að styrkja góðgerðarfélög sem annast matarúthlutanir um 150 millj. kr. Við vorum með svipaða tillögu við frumvarp til fjáraukalaga en þar sögðu allir ríkisstjórnarflokkarnir nei, þingmenn Viðreisnar sátu hjá og tillagan var felld. Því erum við líka með tillögu hér um að 150 millj. kr. renni til þess að hjálparsamtök geti úthlutað þurfandi mat. Það er grundvallaratriði. Ef við ætlum að teljast til siðmenntaðra þjóða þá hljótum við að geta styrkt þessa starfsemi svo enginn þurfi að þola hungur. Þetta er ekki há fjárhæð í samhengi fjárlaga en skiptir mjög miklu máli. Sama má segja um tillögurnar um leiðsöguhundana og Sjónstöðina og SÁÁ.

Mig langar að ræða eitt af baráttumálum Flokks fólksins. Slagorð okkar er: Fæði, klæði og húsnæði. Sumir líða skort í íslensku samfélagi. Það segir í stjórnarskrá Íslands, 1. mgr. 76. gr., með leyfi forseta:

„Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.“

Hvað felst í þessu? Hvað felst í því að eiga ekki fæði, klæði og húsnæði? Ef við skoðum það hvað fátækt er, flettum upp fátækt í frjálsa alfræðiritinu Wikipediu, þá er þar fjallað um fátækt og örbirgð á sama stað. Þar segir að fátækt eða örbirgð sé efnahagslegt ástand skorts. Ég ítreka að í ákvæði 76. gr. er fjallað um örbirgð, að allir eigi rétt til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar eða sambærilegra atvika, þ.e. allir eiga rétt á því að fá aðstoð samkvæmt stjórnarskránni ef þeir eru í fátækt eða örbirgð. Á Wikipediu segir að fátækt sé umdeilt hugtak. Við getum talað um algilda eða afstæða fátækt. Afstæð fátækt, eðli sínu samkvæmt, er til staðar þegar borin er saman efnahagsstaða hópa. Í þeim tilvikum getur hún falist í vöntun á heilbrigðisþjónustu, menntun, fötum eða jafnvel farartækjum og verið dæmi um það sem greinir á milli ríkra og fátækra. Það getur líka verið þegar einhver líður skort á lífsnauðsynjum svo sem mat, vatni eða húsakynnum. Fæði, klæði og húsnæði. Um það snýst málið. Fólk á ekki að þurfa að lenda í örbirgð á Íslandi. Það er varið í stjórnarskránni. Við erum að berjast fyrir sjálfsögðum mannréttindum sem eru varin í stjórnarskránni en löggjafinn hefur ekki séð til þess að hópur fólks sé ekki í fátækt. Það á við um öryrkja og það á við um aldraða alveg sérstaklega.

Það hefur margt verið skrifað um fátækt og ég get bent á t.d. bækur Tryggva Emilssonar, Fátækt fólk, frá 1976, og Baráttuna um brauðið, þar sem hann skrifar um fátækt fólk á Íslandi og lífsbaráttu þess í íslensku samfélagi. Bækur hans voru t.d. tilnefndar til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Þær eru sönnun þess og þarf ekki að fara í grafgötur um það að fátækt hefur verið til staðar öldum saman og er til staðar í dag í íslensku samfélagi. Við þekkjum sögu bragganna sem voru hér áratugum saman, að mínu mati algerlega að óþörfu. Það er alveg óskiljanlegt að ekki skuli hafa verið tekið á því máli á sínum tíma, allt vinnandi hendur sem þurftu að sætta sig við að búa í bröggum áratugum saman. Það sama er í dag, fólk sem skortir fæði, klæði og húsnæði og lifir í fátæktargildru. Flokkur fólksins er að berjast fyrir því að allir hafi fæði, klæði og húsnæði, fólk sé ekki í örbirgð, ekki í fátækt í einu ríkasta samfélagi heims. Síðast þegar ég athugaði það var Ísland í sjötta sæti hjá OECD, Efnahags- og framfarastofnuninni, klúbbi ríkra þjóða í heiminum. Öll ríkustu samfélög heims eru í OECD, Efnahags- og framfarastofnuninni í París.

En hvernig er staðan í dag? Staðan í dag er sú að tekjur ríkissjóðs duga ekki til að reka heilbrigðiskerfið, almannatryggingakerfið, menntakerfið og ekki einu sinni vegakerfið. Stefnuleysi ríkisstjórnarinnar sem birtist í fjárlagafrumvarpinu sýnir undirfjármögnun velferðarkerfisins. Stefnuleysið birtist líka þegar fjárlagafrumvarpið var fyrst lagt fram. Þá var erfitt að lesa í stefnuna en síðan komu breytingartillögur vegna þess að það var komin ný spá Hagstofu Íslands og ný áætlun um tekjustofna ríkisins. Þá komu veigamiklar breytingar til að setja meiri pening í heilbrigðiskerfið. Þá var tekin upp ný stefna, aðeins bætt í. Auðvitað má lesa stefnuna út úr fyrsta fjárlagafrumvarpinu en þetta sýnir líka vinnubrögðin og undirbúningsleysi ríkisstjórnarflokkanna og fjármálaráðuneytisins við gerð fjárlagafrumvarpsins sem er mjög mikilvægt að við í fjárlaganefnd förum yfir og ég treysti því að hv. formaður fjárlaganefndar stýri þeirri vinnu og taki það upp á nefndarfundum.

Ríkisstjórnin hefur ekki kynnt neinar markvissar aðgerðir til að vinna gegn hörðustu áhrifum verðbólgunnar, sérstaklega á þá efnaminni, og hún virðist halda að sér höndum í þeim efnum þar til kjarasamningaviðræður eru lengra komnar. Það virðist vera að þau séu að bíða. Vissulega hefur eitt stéttarfélag skrifað undir kjarasamning, Starfsgreinasambandið, og fleiri munu gera það síðar vonandi. Mjög líklega kemur ríkið þar að á lokasprettinum.

Hin mikla kjaragliðnun sem hefur átt sér stað milli launafólks og fjármagnseigenda frá árinu 2011 er mikil og stéttaskipting er að aukast í íslensku samfélagi. Hvernig er hún að aukast? Hún er að aukast með því t.d. að fjármagnstekjur hafa aukist um 120% að raunvirði á tíu árum. Atvinnutekjur hafa hins vegar aukist um 53%. Kaupmáttur meðaltals fjármagnstekna hefur aukist um 85% frá árinu 2011 en 31% í tilfelli meðaltals atvinnutekna. 85% fjármagnstekjur, 31% meðaltal atvinnutekna. Þetta er munurinn á fjármagnstekjum og atvinnutekjum. Fjármagnstekjur jukust um 46% að raunvirði milli áranna 2020 og 2021 en atvinnutekjur jukust á sama tíma um 5%. Fjármagnstekjur aukast um 46% en atvinnutekjur 5%. 81% fjármagnstekna rann til efstu tekjutíunda á árinu 2021, til 10% ríkasta fólks samfélagsins sem fær hæstu tekjurnar. Það skýrir af hverju ráðstöfunartekjur topp 10% landsmanna jukust þrefalt á við hin 90% landsmanna. Það er allt í lagi að hafa góða fjármagnstekjur, það er ekkert að því. En það er mjög mikilvægt að allir borgi sinn skerf til samfélagsins, sinn réttláta hlut til samfélagsins. Það er bara ekki þannig í dag. Það er mjög mikilvægt að allir geri það. Þetta er þessi stéttaskipting sem er að aukast í samfélaginu. Það verður að taka á henni. Þetta snýst ekkert um hugmyndafræði sósíalisma eða kommúnisma eða hvað það heitir. Það snýst bara um réttlæti og sanngirni sem er mjög mikilvægt að við höfum alltaf í forgrunni í okkar litla samfélagi. Það búa 370.000 manns á Íslandi og mikil nálægð milli fólks en einhver hluti samfélagsins er í fátækt og örbirgð, sem er þó varið í stjórnarskránni, hefur ekki fæði, klæði og húsnæði, er í örbirgð. Þar eru öryrkjar og ellilífeyrisþegar viðkvæmasti hópurinn. Það er klárt mál hvað segir í 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, með leyfi forseta:

„Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.“

Það má halda því fram með góðum rökum að öryrkjar séu í fátæktargildru, að ellilífeyrisþegar séu í fátæktargildru. Af hverju er það? Jú, ef þeir fara á vinnumarkaðinn koma tekjuskerðingar. Almannatryggingarnar skerðast við það þegar þeir afla sér sjálfsaflafjár, sýna sjálfsbjargarviðleitni. Það er algerlega óásættanlegt. Þeir eiga rétt á aðstoð vegna örorku eða elli en þeir eiga líka rétt vegna örbirgðar, vegna fátæktar. Ríkinu ber þegar að styðja þennan hóp, hann á þegar rétt á aðstoð samkvæmt stjórnarskránni og á líka rétt á aðstoð vegna örbirgðar. Ástæðan fyrir því að þessir einstaklingar detta í fátækt er sú að ríkið er ekki að veita þeim réttinn eða aðstoðina í upphafi vegna örorku eða elli. Þeir detta í fátækt og þá eiga þeir aftur rétt. Það er það sem við erum að berjast fyrir.

Flokkur fólksins var með breytingartillögu í fyrra sem laut að því að hækka frítekjumark öryrkja. Það var hækkað í fyrra. Um síðustu áramót samþykkti Alþingi að hækka frítekjumark ellilífeyris vegna atvinnutekna úr 100.000 kr. á mánuði í 200.000 kr. Við 2. umr. um frumvarp til fjárlaga ársins í ár lagði Flokkur fólksins, ásamt öðrum flokkum í stjórnarandstöðu, til hækkun á frítekjumarki örorku vegna atvinnutekna í 200.000 kr. á mánuði, enda hníga nákvæmlega sömu rök í átt að slíkri breytingu og leiddu til hækkunar á frítekjumarki eldri borgara. Þessu var hafnað fyrir ári síðan, ríkisstjórnin hafnaði þessari tillögu um hækkun frítekjumarks öryrkja. Nú, ári seinna, ætla ríkisstjórnarflokkarnir sjálfir að leggja til sömu hækkun frítekjumarks örorku. Hvað hefur breyst? Hvað hefur breyst á þessu eina ári frá því að okkar tillögu um hækkun frítekjumarks öryrkja í 200.000 kr. var hafnað? Það hefur ekkert breyst, nákvæmlega ekkert breyst. Þetta sýnir alla framsýnina og frumkvæði ríkisstjórnarinnar þótt fagna beri því að sjálfsögðu að það sé verið að hækka frítekjumark öryrkja vegna atvinnutekna sem hefur staðið í stað í 14 ár. Þetta er mikilvæg breyting sem ber að fagna en hún hefði átt að vera samþykkt fyrir ári. Svo var ekki gert.

Eftir stendur sú staðreynd að atvinnutekjur öryrkja munu áfram skerðast frá fyrstu krónu. Það er vegna þess að frítekjumark atvinnutekna gildir ekki um framfærsluuppbótina, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð. Þeir öryrkjar sem hafa framfærsluuppbót og reyna fyrir sér á vinnumarkaði verða því áfram fyrir skerðingu sem nemur 65% af atvinnutekjum þeirra, þar til framfærsluuppbótin hefur verið skert að fullu. Þið getið rétt ímyndað ykkur að þið færuð að vinna, hafið skert aflahæfi vegna örorku, reynið fyrir ykkur á vinnumarkaði, kannski í hlutastarfi, 60–70% vinnu, og atvinnutekjur ykkar væru skertar um 65%, 65 kr. af hverjum 100 kr. sem þið vinnið ykkur inn.

Flokkur fólksins er með breytingartillögu hér upp á 1 milljarð til að draga úr skerðingu almannatrygginga frá fyrstu krónu og ég vonast til að hún verði samþykkt núna, en ef ekki þá getum við beðið ár eftir því að ríkisstjórnin komi með breytingartillögu um það að draga úr skerðingum almannatrygginga frá fyrstu krónu. Ég þori nánast að veðja að það verði gert ef tillaga okkar úr Flokki fólksins verður ekki samþykkt. Það er ekki ólíklegt. Þetta eru einmitt einstaklingarnir sem ríkið á að hvetja til frekari atvinnuþátttöku, hvetja til aukinnar virkni í samfélaginu, hvetja til meiri sjálfsbjargar, hvetja til þess að vera fullir þátttakendur í samfélaginu og þetta eru einstaklingar sem eiga stjórnarskrárvarinn rétt á aðstoð vegna örorku svo þeir falli ekki í örbirgð. Þeir eiga rétt á því. Ríkisvaldið hefur ekki uppfyllt þennan rétt nægjanlega. Það er líka stjórnarskrárvarið atvinnufrelsi í landinu. Er það atvinnufrelsi ef einstaklingur á framfærsluuppbót samkvæmt lögum um félagsaðstoð fer að vinna og atvinnutekjur hans eru skertar um 65%? Er það atvinnufrelsi ef 65 kr. eru teknar af hverjum 100 kr. sem hann vinnur sér inn? Er það hvatning til að fara að vinna? Nei, það er ekki hvatning til að fara að vinna, það er það ekki. Það vita allir. Það er sárt fyrir fólk sem fer að vinna, vill taka þátt í samfélaginu en er síðan skert um 65%. Það er það sem málflutningur Flokks fólksins fjallar um, það er baráttumál Flokks fólksins.

Mig langar að fjalla um mál sem tengist þessu og vísa þá aftur til þess sem ég sagði um þá sem eiga bágt í samfélaginu, þ.e. um framlög til SÁÁ sem ég vitnaði hér til áðan. Í umsögn samtakanna kemur fram að inn í rekstrargrunninn vanti 450 millj. kr. á ári. Meiri hlutinn hefur gert tillögu um tímabundið framlag að fjárhæð 120 millj. kr. til samtakanna. Þetta er sama framlag og í fyrra, 120 millj. kr., sem var tímabundið líka. Það er aftur komið. Þetta sýnir að það verður að fara að tryggja rekstrargrundvöll SÁÁ varanlega. Ætli það komi aftur eftir ár tímabundið framlag upp á 120 millj. kr. í eitt ár? Það er ekki ólíklegt. Baráttan gegn fíknisjúkdómum er barátta sem ríkinu ber að taka fullan og virkan þátt í og fjármagna að fullu. Þetta eru áhugamannasamtök sem reka eina fíknisjúkrahúsið í landinu, það eina sem ég veit um, og þarna er um að ræða sjálfsagða heilbrigðisþjónustu við landsmenn. Íslenskt samfélag hefur náð ágætum árangri gegn áfengisbölinu eins og hv. þm. Tómas A. Tómasson kom inn á áðan. Ég er orðinn það gamall að ég man þegar maður heyrði um Freeport í Bandaríkjunum, menn voru að fara til Bandaríkjanna, Silungapoll og allt þetta og ég hef búið annars staðar þar sem áfengissýki er miklu meira, ef ég má sletta, með leyfi forseta, stigmatíseruð. Það er miklu meira í felum að fólk eigi við áfengisvandamál að stríða. Ég efast um það að nokkurn tíma hafi þingmaður í norska Stórþinginu komið og sagt að hann eigi við áfengissýki að stríða eða í danska þinginu, mjög líklega ekki í norska Stórþinginu. En við erum mjög opin með þetta, við erum umburðarlynd þjóð að mörgu leyti og alveg sérstaklega hvað þetta varðar og við eigum að geta verið fremst í heimi þegar kemur að þessum málaflokki.

Mig langar að fjalla aðeins um söluna á Íslandsbanka, þá fúsksölu sem átti sér stað þar sem hann var seldur á undirverði. Þetta er hluti af miklu stærra vandamáli, íslenska klíkufúsksamfélagið fékk eina ferðina enn að ráða ríkjum og Alþingi Íslendinga, æðsta stofnun landsins, er í baksi við að taka á málinu. Fyrrum forsætisráðherra og borgarstjóri, núverandi ritstjóri Morgunblaðsins, sagði að það þyrfti að vera agi í herbúðunum. Ef það á ekki að vera agi við sölu á eignum ríkisins þá veit ég ekki hvar hann á að vera. Við á Alþingi verðum að taka á málum þegar svona fer úrskeiðis. Það er ekki það að mig langi svo mikið að Bjarni Benediktsson þurfi að segja af sér sem hæstv. fjármálaráðherra. Við verðum að taka þetta með heildarhagsmuni Íslands í huga og það verður einhver að axla ábyrgð á því hvernig þetta gat átt sér stað. Ég las í dag lögfræðilega greinargerð varðandi söluna á ÍL-sjóði sem mun snerta ríkisfjármálin um ókomna tíð, eða ekki ókomna tíð en næstu ár alveg klárlega. Sú greinargerð fyrir lífeyrissjóðina er frá Róbert Spanó, fyrrverandi forseta Mannréttindadómstóls Evrópu, nú prófessor við lagadeild Háskóla Íslands og gestaprófessor við lagadeild Oxford-háskóla. Ef Alþingi Íslendinga ætlar ekki að standa við skuldbindingar sínar varðandi ÍL-sjóð þá verður skaðabótamál gegn íslenska ríkinu. Við erum skaðabótaskyld af því að við stöndum ekki við samninga okkar. Það er enn eitt málið sem mun fela í sér, ef við stöndum ekki skuldbindingar, að við munum lenda í dómsmálum árum saman og það mun mjög líklega enda í Strassborg. Í áliti hans kemur skýrt fram að ef við á Alþingi Íslendinga ætlum að setja lög hvað ÍL-sjóð varðar feli það í sér eignarnám á þeim hluta af kröfum skuldabréfaeigenda sem ekki fá fullar efndir á grundvelli skilmála við útgáfu skuldabréfanna, skuldabréfa sem íslenska ríkið eða ÍL-sjóður, Íbúðalánasjóður, gaf út 2004 á genginu 3,75. Festu sig í 40 ár á genginu 3,75. Hann segir í lokin, með leyfi forseta:

„Í því ljósi, og með vísan til þess að ekkert liggur enn fyrir um frekari framgang málsins á vettvangi Alþingis, verður í þessu áliti ekki fullyrt frekar um þau álitaefni sem hér á reynir á grundvelli stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu komi til þess að sett verði löggjöf sem hefur að geyma annað fyrirkomulag á uppgjöri ÍL-sjóðs en lýst er í skýrslu ráðherra.“

Hann segir um það sem segir í skýrslu ráðherra, varðandi það að setja lög til að slíta sjóðnum, að það feli í sér eignarnám. Punktur. Að fela í sér eignarnám þýðir að ríkissjóður, íslenska ríkið, verður að greiða bætur fyrir. Þetta er mál sem við þurfum að taka fyrir í fjárlaganefnd, vonandi sem allra fyrst og tengist ríkisfjármálum að öllu leyti. (Forseti hringir.) Sama má segja varðandi lífeyrisaukamálið hjá LSR. Það er líka enn eitt málið sem mun koma mjög illa við ríkissjóð í framtíð. Við erum þegar búin að heimila 14 milljarða kr. í það.