Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[22:49]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Lenyu Rún Taha Karim fyrir andsvar sitt. Góð spurning varðandi nefskattinn og þá væntanlega varðandi RÚV. Ég tel nefskattinn, þ.e. fjármögnun RÚV, ekki réttlátan. Það er ekki réttlátt að hann hækki með vísan til verðbólgu eða fjölgunar íbúa á Íslandi.

Varðandi þjóðkirkjuna og sóknargjöldin þá vil ég benda á — við getum öll haft okkar skoðun á stjórnarskránni — núgildandi stjórnarskrárákvæði sem hlaut stuðning í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012, minnir mig. Í 62. gr. segir, með leyfi forseta: „Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.“ Ég lít á það þannig að sóknargjöldin, sem eru gjöld sem eru sett á almenning, á fólk, sem renna síðan til þjóðkirkjunnar — að gjöld sem fólk í þjóðkirkjunni greiðir eigi að renna til þjóðkirkjunnar og það er hluti af þessu ákvæði. Þarna er íslenska ríkið að framkvæma lög um sóknargjöld, það er að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt stjórnarskránni. Það er ekki þar með sagt að íslenska ríkið eigi ekki að styðja eða sjá til þess að önnur trúfélög eigi líka að fá að njóta sín, alls ekki. Það breytir því ekki að við erum með þetta ákvæði sem er sátt um í samfélaginu, tiltölulega góð sátt, og ég tel að lög um sóknargjöld séu hluti af þessum stuðningi ríkisvaldsins við þjóðkirkjuna. Þannig að ég ber ekki saman fjármögnun Ríkisútvarpsins og lög um Ríkisútvarpið og hvernig þau eru fjármögnuð við lög um sóknargjöld. Ákveðin vernd Ríkisútvarpsins er ekki í stjórnarskrá.