Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[22:51]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla bara að segja að þetta voru bara mjög góð rök hjá hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni. Ég er sem sagt laganemi, ég held að það komi fram í hverri einustu viku sem ég sit á þingi, en mér finnst túlkun á stjórnarskránni rosalega mikilvæg og eins meingölluð og núgildandi stjórnarskrá er þá er hún samt í gildi. Þetta er bara punktur sem ég hafði ekki hugsað út í og ætla að einhverju leyti að játa mig sigraða þegar kemur að minni skoðun á því … (Gripið fram í.) — Nei, nei, þegar kemur að minni skoðun á því hvort ríkið ætti að styðja þjóðkirkjuna með framlögum á forsendum núgildandi ákvæða. En það er ekki þar með sagt að þetta eigi að halda svona áfram, að það eigi ekki að láta reyna á þetta ákvæði eða að láta reyna á það að breyta þessu ákvæði. En ég er enn þá á þeirri skoðun og svo er ég líka á þeirri skoðun að ef ríkið ætlar að styðja eitt trúfélag þá beri því að styðja önnur trúfélög líka. (Forseti hringir.) Ég náði ekki að spyrja annarrar spurningar.