Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[22:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru áhugaverðar umræður. Það er mikilvægt að muna það að sóknargjöld renna til sókna, ekki til þjóðkirkjunnar sem slíkrar. Ég var dálítið að hlusta aftur á það sem ég hlustaði á í gær hjá hv. þingmanni en vil kannski byrja á því að leiðrétta bæði hann og hv. formann hans flokks varðandi viðtalið sem ég var í í morgun á Bylgjunni, ég var að vísa til þess að það væri komin fram heildstæð stefna að mínu mati. Ég var ekki að vísa til þess að það væru einungis breytingartillögur frá einum flokki, enda er ég nú eldri en tvævetur hér á þingi og kann þessa rútínu alveg og veit að það eru nánast allir flokkar búnir að leggja fram breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið. Ég orðaði þetta þannig að miðað við það sem fram var komið frá þeim væri það í þá veru að það mætti líta á það sem heildstæðar pólitískar tillögur og áherslur. Ég vildi bara halda því til haga hér í upphafi.

Hins vegar langar mig til að spyrja hv. þingmann hvort Flokkur fólksins hyggst draga til baka breytingartillögu um fjölmiðlun. Á fundi okkar í morgun var þetta til umræðu, m.a. til að fara ofan í lagaumhverfi Ríkisútvarpsins. Það er sama hvort okkur finnst að Ríkisútvarpið eigi að fá sjálfvirkar uppfærslur eða ekki eða með hvaða hætti það er. Lögin eru skýr um Ríkisútvarpið og ef þessi tillaga á að ná fram að ganga þá þarf fyrst að breyta lögum um Ríkisútvarpið. Telur hv. þingmaður að það sé tækt að gera það? Hyggst hann leggja fram tillögu þess efnis hér á þingi og telur hann að hún muni ná fram að ganga núna þessa daga fyrir jól þannig að þessi breytingartillaga geti orðið að veruleika að hans mati?