Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[23:32]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður byrjaði ræðu sína á að tala um tímann sem við höfum haft til að fara yfir þetta fjárlagafrumvarp og bar það saman við fyrra ár þegar við höfðum rosalega lítinn tíma. En ég ætla að halda því fram að við höfum haft minni tíma til að fara yfir þetta frumvarp af því að það kom í rauninni ekki tilbúið frumvarp hérna í haust, sem við hefðum átt að henda aftur í ríkisstjórnina. Við fengum ekki breytingartillögurnar fyrr en í byrjun desember sem gerðu þetta frumvarp að fullbúnu frumvarpi. Það hefur því ekki fengið það umsagnarferli sem fullbúið frumvarp myndi alla jafna fá. Við glímum við dálítið skrýtinn vanda akkúrat núna því að allar umsagnirnar sem komu við þetta frumvarp eru í rauninni gagnslausar, þær eru úreltar, algjörlega úreltar. Sú stoð sem við höfum haft í greiningum ýmissa aðila, ASÍ, BSRB, Reykjavíkurborg, Viðskiptaráðs og Samtaka iðnaðarins, Samtaka atvinnulífsins og allra þessara aðila sem eru með sitt sjónarhorn á fjárlögin, mishjálplegt en hjálplegt út frá því sjónarhorni, er úrelt. Það hefur mjög áhugaverð áhrif á vinnulagið því að það er samt farið í gegnum allt vinnulag eins og venjulega, beðið eftir umsögnum, teknir inn gestir sem segja það sem stendur í umsögnum þeirra, úreltum núna. Það er bara verið að bíða, tikka í boxin, bíða eftir nýrri þjóðhagsspá og hvað ríkisstjórnin ætlar að gera við því og svo er bara keyrt í gegn, nákvæmlega eins og í fyrra, á örstuttum tíma, óháð því hvað er hægt að segja efnislega um gagnrýnina á frumvarpið.