Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[23:36]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Ég hef lítið annað um það að segja en bara: Heyr, heyr. Eftir nokkur skipti af því að glíma við fjárlög alveg í blálok ársins út af síðbúnum kosningum og alls konar svoleiðis þá hef ég ýmislegt um vinnulagið að segja. Ég ætti kannski að koma því að hér í umræðunni. Ég vil minnast á tvennt sem hv. þingmaður nefndi, annars vegar tillögurnar sem koma hérna seint og síðar meir eða ekki, eins og hann segir um efnahags- og viðskiptanefnd. Það er ekki búið að leggja á borðið fyrir framan okkur stefnu stjórnvalda í húsnæðismálum af því að þau geta ekki gert neitt, það er einhver nefnd sem er að vinna sem virðist bara vera að bíða eftir því hvað kemur úr einhverjum kjarasamningsviðræðum og það á að marka stefnu stjórnvalda í málaflokknum. Til hvers erum við þá með þessa ríkisstjórn? Af hverju erum við þá ekki með verkalýðsforystuna hér, sem situr í þessum sætum í staðinn? Ég hefði haldið að stefna stjórnvalda kæmi frá ríkisstjórninni en þau eru greinilega svo verklaus og geta ekki komið sér saman um hlutina þannig að þau þurfa að fá einhverja aðra til þess að búa til stefnuna fyrir sig.

Hitt sem hv. þingmaður nefndi var NPA og mér finnst þetta svo merkilegt með NPA-samningana, fjölda samninga og fjárheimildir á móti, þetta mat á því hvað hver samningur á að kosta og þegar fjárheimildin er búin verða ekki fleiri samningar þó að fjöldi samninga standi í lögum. Alla jafna er það þannig að við setjum ekki í lög varðandi atvinnuleysistryggingar að bara 10.000 manns megi sækja um atvinnuleysisbætur. Það virkar ekki þannig. Þeir sem vilja, sækja um. Og það stendur ekki: Það mega 100.000 sækja um en við setjum bara 2 kr. í fjárheimildirnar og svo ætlum við að hætta að borga atvinnuleysisbætur þegar búið er að borga 2 kr. Nei, það virkar ekki þannig.