Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[23:39]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Það er einmitt þetta. Maður veit ekki neitt fyrr en á síðustu metrunum, fyrr en holskeflan skellur á manni og þá rennur upp ljós fyrir manni, það eru tugir milljarða komnir á flot og enginn veit út af hverju. Það er auðvitað mjög slæmt að þetta skuli vera svona. Hér er nefnd húsnæðisstefna. Já, þetta er stórt mál. Hæstv. innviðaráðherra hefur m.a. verið að kynna í fjölmiðlum samstarf við sveitarfélög og stóra málið er auðvitað að sveitarfélögin viti út á hvað þetta á að ganga. En ég er ekkert viss um að þau viti það. Hvar á að byggja? Á að byggja í Reykjavík eða á að byggja á Ísafirði, í Reykjanesbæ, á Akranesi? Hvar á að byggja? Hvar á fólkið að staðsetja sig? Það þarf auðvitað að horfa á þessi vaxtarsvæði sem hafa núna verið að verða til, eitt á Suðurnesjum og annað í Árborg þar sem mikill vöxtur hefur verið. En þar hafa sveitarfélögin þurft að glíma við þennan vanda. Ríkið hefur ekkert verið þar. Það er verið að skera niður stofnframlög sem þurfti auðvitað að standa við, það skiptir verulegu máli að auka möguleikana á framboðshliðinni, ekki bara eftirspurn, eftirspurn. Það á að fjölga íbúðum í byggingu og það getur ríkið svo sannarlega gert með stofnframlögum. Eitt og annað er hægt að gera. Það er hægt að hjálpa sveitarfélögunum að fá ódýrari lán en núna. Þetta er kannski hluti af stefnu sem þarf að vinna. Og ég er alltaf rasandi hissa yfir þessum NPA-samningum, eftir að hafa verið í sveitarstjórn, ég skil þennan bardaga á milli ríkis og sveitarfélaga, og horfi á það að samningar sem áttu að verða 172, urðu bara 90, þannig að sporin hræða. (Forseti hringir.) Munum við sjá að samningarnir, sem eiga að vera 50, verði bara 20?